Ragnheiður Jónsdóttir | september. 26. 2017 | 19:00

LPGA: Ólafía Þórunn í ráshóp með Catrionu Matthew fyrirliða Solheim Cup

Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, tekur næst þátt í  McKayson New Zealand Open, sem er mót vikunnar á LPGA og hefst næsta fimmtudag, 28. september 2017.

Mótið fer fram Auckland, á Nýja-Sjálandi og stendur 28. september – 1. október.

Þetta er 21. mót Ólafíu Þórunnar á LPGA mótaröðinni – og fyrir þetta mót er hún í góðri stöðu er T-78 á stigalista LPGA, en hún þarf að halda sér meðal 100 efstu til þess að viðhalda fullum spilarétti á LPGA 2018 og eins er Ólafía, sem stendur, í 69. sæti peningalistans með heildarvinningsfé upp á $187,141 (u.þ.b. 20 milljónir íslenskra króna).

Ólafía á rástíma kl. 1:32 p.m. að staðartíma (sem er kl. 00:32 a.m., fimmtudaginn þann 28. að íslenskum tíma).

Í ráshóp Ólafíu Þórunnar eru þær Catriona Matthew, fyrirliði liðs Evrópu í Solheim Cup 2019 og Na Yeon Choi.  Solheim Cup 2019 fer fram í heimalandi Matthew, Skotlandi og á Gleneagles vellinum.