Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 24. 2017 | 13:00

LPGA: Ólafía Þórunn hefur leik í Volvik mótinu kl. 11:37 á morgun

Það er nóg um að vera hjá Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur á LPGA mótaröðinni þessa dagana. Ólafía keppir á fjórum mótum í röð en hún hefur lokið við fyrsta mótið í þessari mótatörn.

Ólafía komst ekki í gegnum niðurskurðinn á Kingsmill meistaramótinu sem fram fór í Williamsburg í Virginíufylki í Bandaríkjunum í síðustu viku. Á morgun hefst LPGA Volvik meistaramótið á Travis Pointe GC í Ann Arbor.  Ólafía Þórunn hefur leik kl. 11:37 að íslenskum tíma á morgun.

Thomas Bojanowski, unnusti Ólafíu Þórunnar, var aðstoðarmaður hennar á Kingsmill meistaramótinu í Williamsburg í þessari viku.

Ólafía Þórunn fær nýjan aðstoðarmann á LPGA Volvik mótinu en þar mætir til leiks þaulreyndur atvinnukylfuberi.

Dagana 2.-4. júní keppir Ólafía á ShopRite LPGA Classic í New Jersey.

Lokamótið í þessari fjögurra vikna törn verður í Toronto 8.-11. júní þar sem Manulife LPGA Classic mótið fer fer fram.

Ólafía Þórunn hefur nú þegar leikið á sjö mótum á LPGA mótaröðinni frá því í janúar. Hún komst í gegnum niðurskurðinn á fyrstu tveimur mótunum en síðan þrjú mót í röð þar sem hún komst ekki í gegnum niðurskurðinn. Á sjötta mótinu komst hún í gegnum fyrri niðurskurðinn eftir 54 holur og hún komst ekki í gegnum niðurskurðinn á síðasta móti i Williamsburg.

Hér má sjá úrslitin hjá Ólafíu það sem af er keppnistímabilinu SMELLIÐ HÉR: