Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 25. 2018 | 20:00

LPGA: Ólafía náði ekki niðurskurði

Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir náði ekki niðurskurði á LPGA Volvik Championship.

Hún lék seinni hring sinn í mótinu á 3 yfir pari, 75 höggum; fékk 2 fugla, 2 skolla og 1 afar slæman skramba, sem segja má að hafi riðið baggamuninum, þ.e. 7 högg á par-4 8. holuna.

Samtals lék Ólafía Þórunn á 2 yfir pari, 146 höggum  (71 75) og það dugði ekki til.

Ólafía Þórunn var 2 höggum frá því að komast í gegnum niðurskurð, en hann var miðaður við slétt par eða betra.

Það versta er þó að hún fer úr 108. sæti stigalistans niður í 119. sætið, en hún verður að halda sér meðal efstu 100 fyrir árslok til þess að halda spilaréttindum sínum á LPGA.

Þetta var 11. LPGA mót Ólafíu Þórunnar á þessu keppnistímabili og hefir hún komist 3 sinnum í gegnum niðurskurð.

Mörg mót eru þó enn fram að því og getur Ólafía Þórunn hæglega náð þessu tilbaka með því að einbeita sér að því að komast gegnum niðurskurð í næstu mótum og hætta þessari vitleysu að sprengja síðustu holur sínar á hringnum.

Margir heimsklassa kvenkylfingar náðu ekki niðurskurði á Volvik mótinu m.a. Paula Creamer, sem m.a. hefir átt fasta- sæti í Solheim Cup liði Bandaríkjanna, og eins Mel Reid, sem líkt og Paula hefir átt sæti í Solheim Cup liði, bara Evrópu megin, síðan komst fyrrum nr. 1 á Rolex-heimslista kvenna Yani Tseng ekki gegnum niðurskurð svo fáeinar séu nefndar.

Til þess að sjá stöðuna á Volvik LPGA Championship SMELLIÐ HÉR: