Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 23. 2018 | 22:00

LPGA: Ólafía mætir á Bahamas með nýjan kylfusvein

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur leik á fyrsta móti ársins á LPGA mótaröðinni í þessari viku. Íþróttamaður ársins 2017 keppir á Pure Silk mótinu á Bahamas. Ólafía Þórunn lék á þessu móti í fyrra en það var jafnframt fyrsta mót hennar á sterkustu mótaröð heims.

Mótið hefst á fimmtudaginn, 25. janúar, og verða leiknar 72 holur eða fjórir keppnishringir á fjórum dögum.

Í fyrra komst Ólafía Þórunn í gegnum niðurskurðinn á sínu fyrsta móti og endaði hún í 69. sæti á -5 samtals þar sem hún lék á 287 höggum (71-68-77-71) en par Ocean vallarins á Paradise Island er 73 högg.

Ólafía Þórunn mætir til leiks með nýjan aðstoðarmann eða kylfubera. Sá heitir Gary Wildman og hefur m.a. starfað fyrir Emily Kristin Petersen og Charley Hull. Hann býr yfir mikilli reynslu en hann mun starfa með Ólafíu Þórunni á nokkrum mótum í upphafi tímabilsins áður en ákvörðun verður tekin um framhaldið.

Flestir af bestu kylfingum heims eru á meðal keppenda. Þar má nefna Shanshan Feng frá Kína sem er efst á heimslistanum. Hún varð í þriðja sæti á síðustu Ólympíuleikum en þetta er í fyrsta sinn sem hún keppir á Pure Silk mótinu á Bahamas. Feng er ein af fimm keppendum á þessu móti sem eru á topp 10 listanum á heimslistanum. Hinar eru (3.) So Yeon Ryu, (4.) Lexi Thompson, (5) In-Kyung Kim og (8) Ariya Jutanugarn.

Ryu og Kim sigruðu báðar á risamóti á síðasta tímabili. Thompson var nálægt því að sigra á Pure Silk mótinu í fyrra, en hún tapaði í bráðabana gegn Brittany Lincicome.

Eins og áður segir á Brittany Lincicome titil að verja og hún er að sjálfsögðu mætt til leiks á Bahamas.