Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 5. 2018 | 23:00

LPGA: Ólafía fer vel af stað

Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir úr GR hóf leik í dag á Thornberry Creek LPGA mótinu í Oneida Wisconsins í Bandaríkjunum.

Íþróttamaður ársins 2017 lék á 69 höggum eða -3.

Hún er T-54 eftir 1. keppnisdag, þ.e. deilir 54. sætinu ásamt 24 öðrum kylfingum, sem eru rétt ofan við niðurskurðarlínuna. Ólafía Þórunn hóf leik á 1. teig og fékk alls sex fugla og þrjá skolla á hringnum.

Ólafía var á meðal þeirra fyrstu sem hófu leik á 1. keppnishringnum. Ragnar Már Garðarsson, afrekskylfingur úr GKG, er aðstoðarmaður hennar í þessu móti líkt og á undanförnum mótum.

Mótið er það 15. á keppnistímabilinu hjá Ólafíu. Hún hefur komist í gegnum niðurskurðinn á fjórum þeirra. Ólafía Þórunn er í 128. sæti CME listans fyrir þetta mót.

Efst í mótinu eftir 1. dag er Katherine Kirk frá Ástralíu en hún lék á 10 undir pari, 62 höggum.

Til þess að sjá stöðuna á Thornberry Creek LPGA mótinu SMELLIÐ HÉR: