Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 27. 2014 | 20:30

LPGA: Nýliða vísað úr móti fyrir reglubrot

Marína Alex sem var að keppa í fyrsta LPGA mótinu sínu,  var vikið úr mótinu, þ.e. fyrsta LPGA móti ársins Pure Silk Bahamas LPGA Classic  fyrir reglubrot þ.e. fyrir að fara um 1 meter út fyrir skorkortatjald á mótinu, án þess að hafa skrifað undir skorkort sitt.

Fyrir þetta brot var henni vikið úr mótinu, þ.e. fyrir að hafa tæknilega „farið“ án þess að skrifa undir skorkort sitt.

Alex, sem útskrifaðist frá Vanderbilt háskólanum vann sér inn kortið sitt á LPGA, eftir að hafa orðið í 3. sæti á peningalista Symetra Tour á síðasta keppnistímabili.

Þetta var virkilega furðulegt,“  sagði Alex við GolfChannel.com. „Ég tók eitt skref út fyrir skortjaldið, u.þ.b. 1 meter, en það var allt og sumt.“ 

„Ég var í uppnámi, en ég var meira reið sjálfri mér. Ég var ekki einbeitt í skorinu eins og ég ætti að hafa verið og ég galt fyrir það.“

Alex var að fara yfir skorkort Lauru Diaz, sem hún hafði skrifað undir og hún ætlaði að vanda yfirferð yfir eigið skorkort, áður en hún skilaði því inn.

„Ég var að fara yfir kortið eins og ég geri venjulega holu fyrir holu, en ég átti ekkert sérstakan hring á vellinum og var svolítið annars hugar.“

„Mjöðmin var að stríða mér og ég hugsaði um að ég yrði að hitta þjálfarann minn. Ég veit að ég skrifaði undir skorkort Lauru, en tók ekki eftir að ég hafði ekki skrifað undir mitt kort.“

„Ég skilaði kortinu og spurði hvort allt væri í lagi.  „Allt í lagi „var mér sagt „allt lítur vel út“ og ég steig út fyrir tjaldið að pokanum mínum.  Þegar ég steig út var sagt við mig „bíddu þú skrifaðir ekki undir skorkortið þitt.“

Sjálfboðaliðinn sem tók við skorkortunum kallaði á dómarann Brad Alexander og hann tjáði Alex að hann yrði að vísa henni úr mótinu.

„Mér þykir þetta virkilega leitt,“ sagði Alex. „Ég ætla ekki að gera neitt vesen út af neinu. Þetta voru mistök, ég mun aldrei gera þetta aftur.“