Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 10. 2018 | 10:00

LPGA: Ný liðakeppni næsta sumar

The Ladies Professional Golf Association (LPGA) og The Dow Chemical Company (Dow) tilkynntu í dag um nýja liðakeppni á LPGA mótaröðinni, sem fram mun fara í Great Lakes Bay Region í Michigan næsta sumar.

Nýja mótið mun fara fram í Midland Country Club og standa frá 17.-20. júlí 2019.

Ný keppnisfyrirkomulög virðast vera vinsæl á stóru mótaröðunum sem stendur. Skemmst er að minnast GolfSixes á Evróputúrnum.

The Dow Great Lakes Bay Invitational eins og mótið heitir mun vera með keppnisfyrirkomulag sem er óhefðbundið.

Þetta er 72 holu höggleikskeppni þar sem 72 tveggja manna lið keppa bæði í fjórmenningi og fjórbolta og verðlaunaféð er býsna hátt fyrir kvenmótaröð eða $2 milljónir.

Miðaverð inn á mótið verður stillt í hóf.

Þetta er í fyrsta sinn sem stórmót fer fram í Midland CC í Michigan, en klúbburinn var stofnaður 1928 og völlurinn endurhannaður og endurgerður 2009, þar sem einkennisbrautin er sú 18., sem endar á eyjaflöt.