Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 23. 2015 | 10:55

LPGA: Lydia Ko er ekki að verja titil á LPGA í fyrsta sinn

Lydia Ko á titil að verja í Swinging Skirts LPGA Classic mótinu, sem fram fer í Lake Merced golfklúbbnum í San Francisco nú um helgina, þ.e. 23.-26. apríl 2015.

Þetta er í fyrsta sinn sem hún á færi á að verja titil á LPGA sem atvinnumaður, en henni var búið að takast að sigra á LPGA móti og verja titil á LPGA þegar hún var aðeins 16 ára.

Það var á CN Canadian Women´s Open, sem er fyrsta LPGA mótið sem Ko tókst að sigra á en þá var hún aðeins 15 ára áhugamaður, sem gerir hana að þeirri yngstu til þess að sigra á LPGA. Árið eftir 2013, nánar tiltekið 25. ágúst 2013 tókst Lydiu Ko að verja titil sinn á CN Canadian Women´s Open, þeirri yngstu til þess að verja titil á LPGA.

17 ára varð Lydia Ko yngst til að vera valin nýliði ársins á LPGA og eins varð hún yngst 17 ára, bæði af  karl- og kvenkylfingum til þess að verða nr.1 á heimslista.

Reyndar hefir aðila aðeins í 7 tilvikum tekist að sigra á LPGA áður en hann varð 18 ára og í 6 skipti er Lydia Ko sá aðili, en henni hefir alls tekist að sigra 6 sinnum á LPGA  fyrir 18 ára aldur, en Lydia Ko verður 18 ára á morgun, föstudaginn 24. apríl 2015.

Hinum aðilanum sem tókst að sigra á LPGA fyrir 18 ára aldurinn er Lexi Thompson og henni tókst aðeins einu sinni að  gera það sem Lydiu hefir tekist 6 sinnum þ.e. að sigra á LPGA fyrir 18 ára aldurinn, s.s. mörgum er í fersku minni. Lexi sigraði á Navistar LPGA Classic 2011, en þá var hún aðeins 16 ára 7 mánaða og 8 daga.

Lydia var yngri en Lexi í tvö skipti þegar hún sigraði á LPGA. Hún var aðeins 15 ára 4 mánaða og 3 daga þegar hún sigraði á CN Canadian Women´s Open í fyrra skiptið (yngsta allra til að sigra á LPGA) og hún var 16 ára 4 mánaða og 1 dags ung þegar hún varði titil sinn á CN Canadian Women´s Open.

Já, það er langt því frá að Lydia sé að verja titil í fyrsta sinn á LPGA nú um helgina, henni hefir þegar tekist það fyrir 18 ára aldurinn … en þetta er í fyrsta sinn, sem hún á færi á því sem atvinnumaður því í það skipti sem henni tókst að verja titil sinn á LPGA var Lydia Ko enn áhugamaður.

Þess mætti í lokin geta að takist Lydiu Ko ekki að verja fyrsta titil sinn sem atvinnumaður á LPGA nú um helgina á hún 2 aðra sjénsa til að gera svo á þessu ári þ.e. á:

1 Maraþon Classic, en Lydia var 17 ára 2 mánaða og 26 daga ung þegar hún sigraði á því móti 20. júlí 2014

2 CME Group Tour  Classic, en Lydia var 17 ára 6 mánaða og 30 daga þegar hún sigraði í því móti 23. nóvember 2014.