Lexi Thompson
Ragnheiður Jónsdóttir | september. 21. 2012 | 13:30

LPGA: Lexi Thompson í forystu með 63 högg eftir 1. dag Navistar LPGA Classic

Hin 17 ára Lexi Thompson átti glæsihring á Navistar LPGA Classic, sem hófst á Senator golfvellinum í Capitol Hill, í Prattville, Alabama í gær.

Lexi skilaði sér í hús á 9 undir pari, 63 höggum. Hún var með hreint skorkort sem á voru 9 fuglar og 9 pör.  Með þessum frábæra árangri sínum, sem kom henni í 1. sæti mótsins strax á 1. degi, jafnaði hún mótsmetið.

„Það er virkilega góð tilfinning að ná fyrsta hring upp á 63 undir beltið, en maður verður bara að taka eitt högg í einu,“ sagði Lexi, eftir hringinn góða. „Það er ekki hægt að fara fram úr sér í þessum leik, þannig að ég vona bara að ég spili eins og ég gerði í dag, næstu þrjá hringina.“

Í 2. sæti, 2 höggum á eftir Lexi, eru Hee Young Park frá Suður-Kóreu og nýliðinn á LPGA Lizette Salas frá Bandaríkjunum á 7 undir pari, 65 höggum, hvor.

Hin enska Karen Stupples deilir síðan 4. sætinu með 3 bandarískum: Amöndu Blumenherst, Stacy Lewis og Wendy Ward; en allar voru þær á 6 undir pari, 66 höggum, hver.

Til þess að sjá stöðuna á Navistar LPGA Classic SMELLIÐ HÉR: