Ragnheiður Jónsdóttir | október. 13. 2013 | 14:00

LPGA: Lexi sigraði í Malasíu!

Bandaríski kylfingurinn Lexi Thompson frá Flórída,  sigraði á Sime Darby LPGA Malaysia mótinu.

Hún lék á samtals 19 undir pari, 265 höggum (67 63 66 69).

Þetta er 2. sigur hennar á LPGA og fyrir hann hlaut hún $ 300.000,-  (u.þ.b. 36 milljónir íslenskra króna) og hún er aðeins 18 ára 8 mánaða og 3 daga ung!  Lexi er nú í 137. sæti yfir þá kylfinga LPGA sem unnið hafa sér inn mest verðlaunafé eða $1.555.652,- (u.þ.b. 185 milljónir íslenskra króna). Ofan á framangreint verðlaunafé stúlkuskottsins bætast þar að auki fé sem Lexi fær fyrir ábatasama auglýsingasaminga sem hún er með og tvöfalda framangreinda fjárhæð í það minnsta.

Lexi var að vonum ánægð með sigurinn og sagði m.a. þegar hann var í höfn:„Orð geta ekki lýst tilfinningum mínum núna. Þetta er einskonar endurtekning frá Navistar (1. mót hennar á LPGA, sem hún vann 2011) bara að vera með þessa tilfinningu að ganga upp 18. brautina, faðma áhangendurna og vita að maður er með sigur undir beltinu.  Þetta hefir svo mikla þýðingu, að sigra hér í Malasíu. Það tók aðeins lengri tíma en ég hélt (að ná 2. sigrinum). En þetta er topp (kven) kylfingarnir í heiminum, sem er að keppa hér, þannig að þetta var ekki auðvelt.“

Í 2. sæti varð Shanshan Feng 4 höggum á eftir Lexi á samtals 15 undir pari og 3. sætinu deildu norska frænka okkar Suzann Pettersen og sú sem búin var að leiða allan fyrrihluta mótsins Ilhee Lee frá Suður-Kóreu á samtals 14 undir pari, hvor.

Til þess að sjá lokastöðuna á Sime Darby LPGA Malaysia mótinu SMELLIÐ HÉR: