Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 5. 2013 | 10:00

LPGA: Kerr og Lewis ætla að reyna að stoppa sigurgöngu Asíu á Wegmans risamótinu

Annað risamótið hjá konunum Wegmans LPGA Championship byrjar á morgun fimmtudaginn 6. júní og eru Asíustúlkur ákveðnar að þrífa til sín risamótstitil 9 skiptið í röð.

Í fyrra gerðist það í fyrsta sinn í sögunni að stúlkum frá Asíu tókst að vinna alla risatitla ársins í kvennagolfinu. Inbee Park frá Suður-Kóreu sigraði á Kraft Nabisco Championship í byrjun þessa árs þannig að kannski er verið að reyna að endurtaka fyrri árangur Asíu frá því í fyrra? Nr. 1 á Rolex-heimslistanum í kvennagolfinu er frá Asíu (en það er einmitt Inbee) og 7 stúlkur frá Asíu eru á topp-10 listanum!  Því eru líkurnar á sigurvegara frá Asíu miklar.

„Það væri frábært ef okkur Bandaríkjamönnum tækist að vinna nokkur risamót á árinu,“ sagði Cristie Kerr tvöfaldur risamótsmeistari.

Engri bandarískri stúlku hefir hins vegar tekist að vinna risatitil frá því að Stacy Lewis vann Kraft Nabisco Championship í upphafi árs 2011.

Það er að verða eins erfitt að sigra á LPGA Championship risamótinu eins og Ricoh Women´s British Open. Kerr er sú eina sem tekist hefir að sigra s.l. 12 ár. Áður en Kerr vann 2010 hafði engri bandarískri stúlku tekist að sigra mótið frá því Juli Inkster tókst það árið 2000.

Stúlkur frá Asíu munu hins vegar reyna að sigra 3. árið í röð á Locus Hill. Shanshan Feng vann LPGA Championship á síðasta ári og Yani Tseng frá Taíwan þar áður, árið 2011.

„Ég hef sagt þetta áður,“ sagði Kerr, 35 ára. „Ef maður lítur á fjölda Bandaríkjamanna sem spilað hafa í 10 mótum eða meira á LPGA í 10 ár versus núna, þá sér maður dramatískan mun. Við höfum mikið af frábærum kylfingum frá Asíu á (LPGA) túrnum og þær eru númer. Það er þess vegna sem maður sér mikið af stúlkum frá Asíu sigra á risamótum.

Lewis og Kerr eru einu Bandaríkjamennirnir sem eru meðal topp-11 á Rolex-heimslistanum (Lewis er nr. 2 og Kerr nr. 11).

„Við (LPGA) erum alþjóðleg mótaröð ,” sagði Lewis. „Það er eðli hlutanna á túrnum í augnablikinu. Mér finnst það ekki hryllilegt. Mér finnst þær bara frábærir kylfingar. Maður lítur á lista yfir sigurvegara meðal þeirra og þá sér maður að þær eru allar frábærar, þannig að þetta kemur ekkert á óvart (að þær skuli sigra á svona mörgum risamótum)“

En…..

„Ég ætla mér að breyta þessari hefð,“ sagði Lewis, 28 ára.  Í sama streng tekur Kerr: „ég elska að sigra.“

Það verður gaman að sjá hvað þær stöllur gera og hvort þær eða aðrir landar þeirra á túrnum standa uppi sem sigurvegarar á 2. risamóti ársins n.k. sunnudag.   Eða verður það aftur ein af frábærum kvenkylfingum  frá Asíu …. 3. árið í röð?  Spurningin er næstum ekki hvort það verður einhver frá Asíu heldur hver þeirra.  En kannski að Kerr og Lewis takist að breyta hlutunum?