Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 20. 2012 | 12:20

LPGA: CME Group gerir styrktarsamning við Brittany Lincicome

CME Group, aðalstyrktaðili lokamóts, LPGA CME Group Titleholders sem lauk 18. nóvember s.l. er að fjárfesta í LPGA, ekki viðburði, heldur einum leikmanna LPGA, þ.e. Brittany Lincicome, sem varð efst bandarískra kylfinga í mótinu þ.e. í 4. sæti.

Forsvarsmenn fyrirtækjasamsteypunnar sögðust vilja auka skuldbindingu sína við kvennagolfið og tilkynntu um að styrktarsamningur hefði verið gerður við Brittany Lincicome. Samningsskilmálar voru ekki gefnir upp.

Lincicome hefir sigrað 5 sinnum á LPGA ferli sínum og hefir unnið sér inn yfir $5 milljónir í verðlaunafé. Í fyrra tók hún þátt í 3. Solheim Cup keppni sinni f.h. Bandaríkjanna.

„Að styrkja hvoru tveggja Brittany og LPGA… eykur útbreiðslu á vörumerki CME Group á alþjóðavísu og framfylgir viðleitni okkar til þess að ná til viðskiptavina,“ sagði  Anita Liskey, framkvæmdastjóri markaðsmála og samskipta hjá CME Group.

CME Group er einkum í raftækjaiðnaði og með verslanir í  New York og  Chicago.