Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 6. 2017 | 09:00

LPGA: Brittany Lincicome vonar að Trump haldi sér fjarri Opna bandaríska kvenrisamótinu

Bandaríski kylfingurinn Brittany Lincicome sagði í viðtali við Chicago Tribune, að hún vonaðist til að Bandaríkjaforseti haldi sig fjarri 3. kvenrisamóti ársins, sem fram fer á golfstað hans Trump Bedminster í næstu viku.

Vonandi kemur hann ekki á mótið og það verður ekki mikið umstang og vonandi snýst mótið um okkur en ekki hann,“ sagði Lincicome á móti síðustu viku, sem var KPMG Women’s PGA Championship.

Lincicome bætti við að margir kylfingar hefðu ekkert annað val en að spila í mótinu, þrátt fyrir að vera á öndverðum pólitískum meiði en forsetinn m.a. vegna þess hversu verðlaunafé væri hátt.

Það er ómögulegt annað en að taka þátt, jafnvel þótt við vildum sniðganga mótið (í mótmælaskyni við að risamótið sé haldið á golfstað Trump). Ég meina það eru svo miklir peningar í húfi …. við spilum ekki um svo hátt verðlaunafé oft.

Flestir LPGA kylfingar hafa ekki viljað tjá sig um missættið í kringum ákvörðun bandaríska golfsambandsins að halda mótið á golfstað Bandaríkjaforseta Trump í New Jersey.

T.a.m. hafa bæði Stacy Lewis og Paula Creamer neitað að gefa afdráttarlaus svör aðspurðar um afstöðu þeirra til Trump meðan að Cristie Kerr lét hafa eftir sér að hún reynda að „vera ópólítísk) og bætti við „ég trúi því að hann muni gera frábæra hluti fyrir þetta land.

Þriðja risamót kvennagolfsins hefst 13. júlí n.k.