Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 6. 2015 | 02:08

LPGA: Brittany Lincicome sigraði á ANA Inspiration e. bráðabana við Stacy Lewis

Bandarísku stúlkurnar Brittany Lincicome og Stacy Lewis voru efstar og jafnar eftir hefðbundið 72 holu spil í Rancho Mirage í Kaliforníu, þar sem fyrsta kvenrisamót ársins af 5 fór fram nú um helgina.

Báðar léku þær á 9 undir pari, 279 höggum; Lincicome (72 68 70 69) og Lewis (72  69  68  70). Báðar hafa sigrað í mótinu áður; Lincicome 2009 og Lewis 2011.

Það varð því að fara fram bráðabani milli þeirra og var par-5 18. holan spiluð.  Á fyrstu tveimur holum bráðabanans var allt jafnt báðar með par í bæði skiptin. Það var á 3. holu bráðabanans sem úrslitin réðust, en þar var Lincicome aftur með par, meðan Lewis fékk skolla.  Sigurvegari mótsins var því Brittany Lincicome!!!

Það var því Brittany Lincicome sem stökk út í Poppy´s Pond, s.s. hefð er fyrir, en það hefir hún áður gert 2009, þegar hún sigraði á Kraft Nabisco Championship s.s. mótið hét áður (eða á árunum 2002-2014) en þar áður var mótið kennt við Dinuh Shore og kalla eldri kylfingar mótið enn því nafni).

Morgan Pressel varð ein í 3. sæti á 8 undir pari, 280 höggum (67 72 71 70) og voru það því bandarískar stúlkur, sem röðuðu sér í efstu 3 sætin.

Fjórða sætinu deildu síðan 3 „útlenskir“ kylfingar þ.e. Sei Young Kim,frá S-Kóreu, sem leiddi einhvern hluta mótsins og evrópsku kylfingarnir Anna Nordqvist frá Svíþjóð og spænski kylfingurinn Carlota Ciganda; allar á 7 undir pari.

Ein í 7. sæti varð síðan sú sem átti titil að verja, Lexi Thompson, á samtals 6 undir pari.

Nr. 1 á heimslistanum, Lydíu Ko frá Nýja-Sjálandi gekk ekkert sérlega vel í þessu fyrsta risamóti ársins í kvennagolfinu, en hún varð T-51 ásamt 5 öðrum kylfingum, sem allir léku á samtals 3 yfir pari, hver.

Til þess að sjá lokastöðuna á ANA Inspiration SMELLIÐ HÉR: 

Til þess að sjá hápunktana á ANA Inspiration risamótinu SMELLIÐ HÉR: