Ragnheiður Jónsdóttir | september. 9. 2012 | 04:00

LPGA: Bleiki pardusinn kominn á stjá – Paula Creamer leiðir fyrir lokahringinn í Kingsmill

Það er bleiki pardusinn Paula Creamer sem leiðir fyrir lokahring Kingsmill Championship í Kingsmill golfstaðnum, í Williamsburg, Virginiu.

Paula er búin að spila á 16 undir pari, samtals 197 höggum (65 67 65) og hefir tveggja högga forystu á Jiyai Shin frá Suður-Kóreu, sem er í 2. sæti og er búin að leiða allt mótið.

Paula er í 16. sæti á heimslista kvenna sem stendur, en það gæti breyst standi hún uppi sem sigurvegari í kvöld. Hún hefir ekki sigrað í móti frá því á US Open 2010.

„Nei, ég hef ekki sigrað mót í 2 ár,“ sagði Creamer eftir hringinn í gær. „Það virðist eins og heil eilífð, en manni finnst  líka bara eins og það hafi verið í gær sem ég vann, þannig séð. Ég hef mikið verið í baráttunni um efstu sætin, þannig að það er ekki eins og ég sé ekki vön þessu, það er öruggt,“ sagði Creamer. „En það er reyndar…. mér líður frábærlega og sama hvað gerist í kvöld ég ætla bara að fara út þarna og halda áfram að gera það sem ég hef gert í allt ár og leikurinn minn er bara að byrja að koma saman og einn hringur breytir engu þar um, það er alveg öruggt.“

Þriðja sætinu deila bandaríska stúlkan Daníelle Kang og hin hollenska Dewi Claire Schreefel, á 12 undir pari, 201 höggi, hvor.

Fimmta sætinu deila 3 feykigóðar, Stacey Lewis, Ai Miyazato og Azahara Muñoz á samtals 11 undir pari, 202 höggum, hver.

Til þess að sjá stöðuna fyrir lokahring Kingsmill Championship SMELLIÐ HÉR: