Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 6. 2013 | 02:00

LPGA: Amma Paulu Creamer dó

Bleiki pardusinn, Paula Creamer tekur þátt í Kraft Nabisco mótinu, þó hún hafi það ekki gott hvorki andlega né líkamlega. Þrátt fyrir allt lék hún á 4 undir pari, 68 höggum og er komin meðal fremstu keppenda.

Amma Paulu, Florence Stanton, dó á Páskadag og Paula sagði það hafa tekið sinn toll af henni.

„Mér finnst ég vera veik,“ sagði Paula, en hún og amman voru mjög nánar, „amma mín dó og ég sef ekki, það er eins og líkamsstarfsemi mín hafi stöðvast. Síðasta nótt var erfið en að öðru leyti líður mér svolítið betur.“

Amma Paulu var með Parkinsons veiki. Dauði hennar kemur aðeins ári eftir að Paula missti afa sinn, föður megin, Thomas Creamer, sem hún kallaði alltaf pops, en þau voru líka einstaklega náin.

„Því miður, þegar afi dó á síðasta ári, varð ég að læra að fást við missi, sérstaklega hér úti (í golfkeppnum),“ sagði Paula og sagði jafnframt að bæði afi hennar og amma hefðu haft gaman af því að fylgjast með henni spila.

„Þau eru í bestu sætunum núna,“ sagði hún „Þau ganga brautirnar með mér.“