Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 2. 2012 | 09:00

LPGA: Ai Miyazato sigraði á Walmart NW Arkansas Championship

Svona getur golfleikurinn verið grimmur stundum.  Nýliðinn á LPGA, Veronica Felibert, var búin að vera í forystu tvo fyrstu dagana á Walmart NW Arkansas Championship, sem fram fór á Pinnacle golfvellinum í Rogers, Arkansas og lauk seint í gærkvöldi. Fyrir lokahringinn átti Veronica 4 högg á þær tvær sem næstar komu, þær Inbee Park frá Suður-Kóreu og Mika Miyazato frá Japan, 5 högg á Ai Miyazato frá Japan og 6 högg á Azahöru Muñoz. Samt lentu þessar 4 allar í sætum á undan Felibert!

Leikar fóru svo að Ai Miyazato sigraði á samtals 12 undir pari, samtals 201 höggi (68 68 65) og 2. sætinu deildu landa hennar Mika Miyazato og Aza Muñoz frá Spáni á 11 undir pari.  Fjórða sætinu deildu svo Veronica Felibert, sem búin var að leiða allt mótið og Inbee Park frá Suður-Kóreu á 10 undir pari.

Úrslit að öðru leyti SMELLIÐ HÉR: 

Hvað gerðist eiginlega – hvað fór úrskeiðis hjá Veronicu? Á því eru margar hugsanlegar skýringar: 1. Þessar 4 voru allar að spila betur (sem þær gerðu, í höggum talið). 2. Felibert var að spila illa. Að spila á 1 yfir pari (72 höggum eins og Veronica gerði) er einfaldlega ekki nóg þegar kylfingar á borð við Ai og Aza spila á 6 undir pari (65 höggum) – þá er forystan fljót að fuðra upp.

Veronica Felibert frá Venezuela. Mynd: LPGA

Á því af hverju Felibert var að spila „illa“ eru síðan aftur margar tilgátur: Þetta var of mikið fyrir hana, hún hefir aldrei áður verið í þeirri stöðu að geta hugsanlega sigrað 1. LPGA mótið sitt. Líklega hefir hún ofhugsað hvað gæti gerst, e.t.v. verið of örugg með 4 högga forystuna, eða verið of stressuð  og hrædd allan hringinn að missa niður þessa fínu áunnu forystu og þá er voðinn vís, ef andlegi hluti leiksins er ekki í samræmi við aðra þætti leiksins. Eða hún átti einfaldlega slæman dag, eins og allir sem spila golf þekkja, ekkert gekk upp, en er hægt að skrifa það allt á óheppni?

Gefum Veronicu orðið.  Aðspurð um hvað fór úrskeiðis svaraði Veronica: „Ég spilaði ekki eins og ég vildi, en ég var alls ekki stressuð, ég var hissa,“ sagði Felibert. „Ég hélt að ég yrði miklu stressaðri. En sveiflan mín var bara horfin, en ég reyndi ekki að berjast gegn því, spilaði bara með öllu sem ég átti og það var ekki nóg. Og púttin mín voru allan tímann of stutt, ég var í vandræðum með að setja niður. Þannig að þetta var ekki góður dagur fyrir mig, en það var ansi svalt og ég hlakka til að endurtaka leikinn.“

Veronica hlaut mikinn stuðning áhorfenda í Arkansas, sem heilluðust af golfleik hennar. „Þetta var ansi svalt – ég elska þetta,“ sagði Veronica.  „Allir voru að kalla nafnið mitt. Það er svo gaman hér, áhorfendur eru ótrúlegir og ég hlakka til að koma að ári.“

Jafnvel þó Veronicu hafi ekki tekist að næla sér í 1. sigur sinn á LPGA, er hún þó með 4. sæti sínu, sem hún deildi með Inbee Park, búin að tryggja sér spilarétt á CME Titleholders mótið á LPGA, sem fram fer í nóvember n.k, en sem nýliði á LPGA hefir Felibert takmarkaðan spilarétt.

Ai Miyazato.

En nóg um Veronicu, því það er jú Ai sem sigraði!!!  Ai sagðist hafa haft blendnar tilfinningar út af sigrinum, en ekki út af Veronicu….. heldur löndu sinni, nöfnu og vinkonu Miku, sem missti pútt, sem hefði tryggt henni umspil við Ai og hugsanlega 1. sigurinn á LPGA. Ai hefir sigrað svo oft áður en sigurinn á Walmart NW Arkansas Championship var 9 sigur hennar á bandaríska LPGA, en auk þess á Ai 15 sigra á japanska LPGA.  Þessi fyrrum nr. 1 á heimslistanum er einfaldlega frábær kylfingur!!!