Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 10. 2022 | 23:00

LIV: Westy ver ákvörðun sína um að spila á nýju arabísku ofurgolfmótaröðinni

Lee Westwood (oft kallaður Westy) er einn hinna 48 og meðal þeirra þekktari, sem spila á opnunarmóti nýju arabísku ofurgolfmótaraðarinnar, LIV Golf Invitaional.

Hann  hefir varið ákvörðun sína um að leika á opnunarmóti LIV Golf Invitational Series í Centurion Club í London og nefnir það stig sem ferill hans sé á, sem aðalástæðuna.

Í ræðu fyrir upphafsmótið á mótaröðinni sagði Westy, sem varð 49 ára sl. apríl: „Ég hef átt lengri feril en flestir. Þetta er 29. tímabilið mitt, en líkt og flestir, ef í boði væri launahækkun fyrir þig og það á mínum aldri, þá væri ég heimskur að þiggja hana ekki.“

„Hvíti hákarlinn“, (alías Greg Norman) formaður LIV Golf, sem er 67 ára, tilkynnti nýlega að hann hefði fengið 2 milljarða dollara kauphækkun (266 milljarða íslenskra króna) fyrir að stækka arabísku ofurgolfmótaröðina í 14 mót fyrir árið 2024.  Þannig að verið er að greiða eldri kylfingum himinháar fjársummur.

Westy telur það auðvitað af hinu góða og lítur á tilveru LIV, sem góðan hlut þar sem það auki samkeppni milli mótaraðanna þriggja LIV, DP World Tour (Evróputúrinn) og PGA Tour. Hann sagði m.a.:  „Þetta er samkeppni, hún er góð, heldur öllum á tánum. Reyna að ná eins miklu og þeir vilja ná. LIV er þarna, þeir hafa gefið þá yfirlýsingu að reyna ekki að vera ógn. Það eru 14 viðburðir, ég sé ekki hvers vegna mótaraðirnar eigi ekki að  geta verið til staðar samhliða hver annari. Samkeppni er góð.

Nokkrir leikmenn hafa sagt sig úr PGA mótaröðinni undanfarna daga, þar á meðal Dustin Johnson og Sergio Garcia, en Westwood útskýrði að hann líti ekki á þátttöku sína á LIV sem neitt vandamál. Hann útskýrði: „Við höfum allir spilað í Sádi-Arabíu (þegar það hefir passað þeim), við höfum allir áður fengið  undanþágur til að spila þar, þetta er ekkert öðruvísi, ég veit það. Ég hef gert þetta áður og … við eigum að geta spilað hvar sem við viljum.“

Eitt sem Westwood þarf að horfa í er framtíð hans í Ryder bikarnum. Það að hann verði fyrirliði liðs Evrópu virðist vera úr sögunni, nú þegar PGA Tour hefir bannfært hann og 16 aðra leikmenn frá mótum mótaraðarinnar um alla framtíð. Um þetta sagði Westy (áður en til ákvörðunar PGA Tour kom): „Þetta er eitthvað sem ég verð að taka með í reikninginn. Ég er ekki viss um spiladaga mína, ég er fimmtugur í apríl næstkomandi, en fyrirliðabandið (í Rydernum) er svo sannarlega í hættu. „

Komment Westy eru í samræmi við það sem hann sagði í sl. mánuði á The Belfry: „Ég verð bara að gera það sem er mér fyrir bestu.

Þar vék hann líka að áhyggjum áhangenda um uppruna á verðlaunafé LIV ofurgolfmótaraðarinnar, sem kemur frá ríki, sem treður mannréttindi með fótum og stendur fyrir hrottalegum aftökum á ríkisborgurum sínum (sbr. Khashoggi).  Um það sagði Westy: „Við höfum spilað á mótum Evróputúrsins í Sádi-Arabíu. Ég hef áður fengið undanþágur frá PGA mótaröðinni,  þar sem þeim fannst allt í lagi að ég spilaði  í Sádi-Arabíu. Þannig að þetta hefur ekki verið vandamál hjá þeim undanfarin ár.

Í opnunarmóti LIV, sem og í hinum 7 mótum LIV er heildarverðlaunafé $ 25 milljónir. Þar af fara $20 milljónir í einstaklingsverðlaunafé; þar sem sigurvegari hvers móts hlýtur $4 milljónir (1/2 milljarð íslenskra króna) og sá sem er í síðasta þ.e. 48. sæti hlýtur $120.000 (u.þ.b. 16 milljónir íslenskra króna).  Sjá nánar grein Golf 1 um verðlaunafé á LIV með því að SMELLA HÉR: 

Þeim $5 milljónum sem eftir eru er skipt milli 3 efstu liðanna, en LIV er jafnframt liðakeppni, þar sem 12 lið keppa (Keppendunum 48 er skipt upp í 12, 4 kylfinga lið). Þegar Westy var vikið úr PGA Tour var hann nr. 170 á peningalista PGA Tour og búinn að vinna sér inn $335,892, það sem af var árs.  Ljóst er að jafnvel þó hann verði í síðasta sæti í öllum 8 mótum LIV verður hann með hærra verðlaunafé ($ 960.000, eða u.þ.b. 128 milljónir íslenskra króna) á LIV og þarf að hafa minna fyrir því (þarf bara að spila 3 hringi eða 54 holur); auk þess sem hann gæti unnið sér inn bónus úr liðakeppninni.