Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 11. 2022 | 10:00

LIV: Ian Poulter mun áfrýja ákvörðun PGA Tour um að bannfæra hann frá mótaröðinni

Kraftaverkamaðurinn frá Medinah, Ian Poulter, 46 ára, mun ekki gefa upp spilarétt sinn á PGA Tour án baráttu.

Eins og flestum er kunnugt bannfærði PGA Tour sl. fimmtudag, 17 kylfinga úr sínum röðum, fyrir það eitt að þeir kusu að spila á opnunarmóti nýju sádí-arabísku ofurgolfmótaraðarinnar, LIV.  Kom bannið sama dag og þeir tíuðu upp í Centurion Golf í London, þar sem opnunarmótið fer fram.  Bannið nær til allra móta PGA Tour um alla framtíð og þeir sem bannfærðir eru voru allir meðlimir PGA Tour, sem þátt tóku í opnunarmótinu, sem og þeir kylfingar á PGA Tour eða Korn Ferry og öðrum mótaröðum á snærum PGA, sem munu í framtíðinni spila á LIV.

Nokkrir kylfingar, þ.á.m. Kevin Na, Dustin Johnson og Sergio Garcia voru búnir að tilkynna PGA Tour að þeir hyggðust segja upp aðild sinni að mótaröðinni.

Aðrir, sem bannfærðir voru m.a.  Ian Poulter höfðu ætlað sér að halda í spilarétt sinn á PGA Tour.

Þegar hann var upplýstur um að Jay Monahan, yfirmaður PGA mótaraðarinnar, hefði staðið við orð sín og vikið 17 kylfingum af PGA Tour sem hefðu „viljandi brotið reglur þess“ með því að spila í opnunarmóti LIV Golf Invitational mótaraðarinnar, í þessari viku, nálægt London, sagði Poulter við fjölmiðla:

Ég mun áfrýja,  Það er ekkert vit í þessu, miðað við hvernig ég hef spilað golf allan þennan tíma. Ég sagði ekki upp aðildinni vegna þess að mér finnst ég ekki hafa gert neitt rangt. Ég hef spilað um allan heim í 25 ár. Þetta er ekkert öðruvísi.“

Annar kandídat sem líklegur er til að leita til dómstóla er Phil Mickelson, sem ekki sagði upp aðild að PGA Tour og hafði áður verið veittur „lífstíðarþáttökuréttur“ á PGA Tour.

Enn aðrir sem spila á opnunarmóti LIV vonast til að halda spilarétti a.m.k. á Evrópumótaröðinni, en meðal þeirra eru Graeme McDowell og Sergio Garcia.