Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 28. 2012 | 19:40

Lieselotte Neumann er fyrirliði Solheim Cup liðs Evrópu 2013

Evrópumótaröð kvenna hefir árangurslaust reynt að fá Anniku Sörenstam  í fyrirliðastarf fyrir Solheim Cup 2013… en þess í stað nú fengið þá konu sem var fyrirmynd Anniku hér áður fyrr, löndu Anniku Lieselottu Neumann, 45 ára.

Annika vill frá frið til þess að sinna uppeldishlutverki sínu.

Lieselotte Neumann hefir sigrað á 13 LPGA og 8 LET mótum og er best þekkt fyrir að sigra risamótið US Women´s Open 1988, sem Annika segir að hafi verið driffjöður hennar í golfinu og aðalástæða þess að hún fór að æfa af kappi. Neumann hefir spilað í 6 Solheim Cup mótum fyrir Evrópu á árunum 1990 – 2000.

„Ég held að Solheim Cup hafi verið einn af hápunktunum á ferli mínum,“ sagði Neumann nú í morgun. „Ég held að ég setji þetta hlutverk (fyrirliðans) á toppinn, held ég.“

Upphaflega vildi Lieselotte ekki taka við fyrirliðastörfunum og lét taka nafn sitt af lista þeirra sem til greina komu í nóvember s.l. „Ég tók nafnið mitt af listanum,“ sagði hún. „Ég var aðstoðarfyrirliði 2009 og fyrirliði Solheim Cup unglinganna 2011. Ég varð virkilega að hugsa um þetta. Vildi ég taka þetta að mér enn önnur 2 ár? Þetta er mjög tímakrefjandi.“

„En nokkrum mánuðum síðar fékk ég mikið af næs tölvupósti og sms-um frá kylfingum og vinum. Allir lögðust á mig að endurskoða afstöðu mína. Þannig að ég fór að hugsa að ég gæti e.t.v. aldrei fengið tækifærið aftur. Þannig að ég setti nafnið mitt aftur á listann. Þetta er mér mikill heiður. Það er líka frábært að hafa stuðning fjölskyldu og vina.“

Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem þær Meg Mallon (fyrirliði Solheim Cup liðs Bandaríkjanna) mætast. Meg var fyrirliði bandarísku unglinganna og leikar fóru þannig að jafnt var með liðunum þannig að Bandaríkin fengu að halda bikarnum.

„Auðvitað voru allar bandarísku stúlkurnar brosandi og þær evrópsku grátandi,“ sagði hún. „Ég hitti Meg hér um kvöldið og sagði „hvernig væri að spila aftur upp á jafntefli?“

Ef jafnt yrði með liðunum 2013 myndi það þýða að þær evrópsku myndu halda Solheim bikarnum í Evrópu.

Svar Mallone: „Ég held nú ekki!“