Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 10. 2018 | 08:45

LET: Valdís Þóra komst ekki gegnum niðurskurð þrátt f. gott skor -1 í Canberra!

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi, lék í nótt 2. hring sinn á ActewAGL Canberra Classic mótinu, sem er mót vikunnar á Evrópumótaröð kvenna (LET) í samstarfi við áströlsku kvenmótaröðina ALPGA.

Spilað er í höfuðborg Ástralíu, Canberra á keppnisvelli Royal Canberra golfklúbbsins (Myndin í aðalfréttaglugga er af Valdísi Þóru að slá af 14. teig Royal Canberra. Mynd: GSÍ).

Mótið er 54 holur og verður niðurskurður eftir tvo keppnisdaga.

Völlurinn er mjög flottur, smá hæðóttur á örfáum holum en ekkert dramatískt,“ sagði Valdís Þóra á fésbókarsíðu sinni.

Á 2. hring lék Valdís Þóra á glæsiskori 1 undir pari, 71 höggi – fékk 2 fugla og 3 skolla en það dugði ekki til.

Það munaði aðeins 1 höggi á Valdís Þóra kæmist í gegnum niðurskurð.  Niðurskurður var miðaður við 1 yfir pari og þær sem spiluðu á því skori eða betur fá að spila lokahringinn á morgun.

Valdís Þóra var á samtals 2 yfir pari, 156 höggum, (75 71). Ferlega svekkjandi og ergilegt … en það er bara að gleyma þessu – setja þetta í reynslubankann, eins og svo oft er sagt og gríðarlega mikilvægt að fara að einbeita sér að næsta móti, þar sem Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, mun einnig vera meðal keppenda, en það mót er eftir aðeins 12 daga, hefst 22. febrúar 2018 og ber heitið Ladies Classic Bonville og fer fram á einum fallegasta golfvelli Ástralíu, í Bonville golfstaðnum, í New South Wales.

Efst fyrir lokahringinn á Canberra Classic er heimakonan Minjee Lee á samtals 14 undir pari.  Hún sigraði á Oates Vic mótinu fyrir aðeins viku síðan og virðist vera í banastuði þessa dagana …. fyrir utan að vera á heimavelli!

Sjá má stöðuna á ActewAGL Canberra Classic mótinu með því að SMELLA HÉR: