Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 23. 2018 | 20:00

LET: Valdís Þóra kláraði aðeins 7 holur á 2. degi á La Quinta

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr GL, tekur þátt í Andalucia Open de España, sem fram fer á La Quinta Golf & Country Club, dagana 22. – 25. nóvember.

Fyrsta hringinn lék Valdís Þóra á 76 höggum, en hún virðist staðráðin í að gera betur á 2. hring og er búin að fá 3 fugla og 3 skolla á þeim 7 holum, sem hún náði að spila á 2. degi áður en mótinu var frestað vegna myrkurs.

Eftir er að spila 11 holur m.a. tvær sem hún fékk tvöfaldan og þrefaldan skolla á, á 1. hring.

Ljóst er að Valdís Þóra verður að spila á 1 undir pari, 70 höggum eða betur ætli hún sér að komast í gegnum niðurskurð, sem eins og er miðast við samtals 4 yfir pari eða betra. Lokið verður við að spila 2. hring laugardagsmorguninn og þá liggur fyrir hvort Valdís Þóra kemst gegnum niðurskurð.

Efst í mótinu eftir 2. dag er enski kylfingurinn Georgia Hall, en hún er búin að spila samtals á 6 undir pari, 136 höggum (68 68).

Sjá má stöðuna á La Quinta að öðru leyti með því að SMELLA HÉR: