Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 25. 2018 | 18:00

LET: Valdís Þóra hlaut 13.356,- og Ólafía Þórunn 4.118,- ástralska dollara í verðlaun

Valdís Þóra „okkar“ Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr GL og Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir hlutu báðar sigurtékka fyrir frábæran árangur sinn á Ladies Classic Bonville mótinu.

Valdís Þóra hlaut 13.356,66 ástralska dollara (u.þ.b. 1.1 milljón íslenskra króna) og Ólafía Þórunn 4.118,31 ástralska dollara (u.þ.b. 340.000 íslenskar krónur).

Hér er efni í aðra grein hversu óréttlátt það er að verðlaunafé kvenkylfinga sé ekki jafnhátt og á karlkylfinga mótaröðunum – En vel af sér vikið Ólafía Þórunn og Valdís Þóra!!!

Fyrir vikið er Valdís Þóra í 6. sæti stigalista LET og með áframhaldandi góðu gengi tryggir hún sér áframhaldandi keppnisrétt á LET.

Þetta er í 2. sinn sem tveir íslenskir kvenkylfingar spila samtímis í móti á bestu mótaröð Evrópu, LET.

Ekki aðeins komust þær báðar í gegnum niðurskurð af 143 þátttakendum, sem hófu keppni og komu sér þannig í þann 71 kvenkylfinga hóp sem lék um helgina – sem er stórkostlegt í sjálfu sér,  heldur voru þær í topp-15.

Hversu frábært er þetta?  Að tveir kylfingar frá litla Íslandi komist báðir í gegnum niðurskurð – allir keppendurnir frá Íslandi og nái síðan báðir að vera meðal efstu 15?

Já, við getum svo sannarlega verið stolt af þeim Valdísi Þóru og Ólafíu Þórunni!!!

Í aðalfréttaglugga: Valdís Þóra Jónsdóttir, GL og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR.