Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 24. 2012 | 09:30

LET: Uni Credit Ladies German Open hófst í dag

Fyrsta umferðin á Uni Credit Ladies German Open á Evrópumótaröð kvenna er hafin í Golfpark Guthäusern í München í Þýskalandi. Það er Audi bílaframleiðandinn sem styrkir mótið.

Þessi 6393 yarda/5844 metra par-72 golfvöllur var baðaður í sólskini í morgun og hitastigið var í kringum 18°, sem er kjörið fyrir golfleik. Því miður er búist við einstökum þrumum og eldingum síðar.

Í fyrsta hollinu sem fór út í morgun voru  Sophie Gustafson,frá Svíþjóð;  Lee-Anne Pace frá Suður-Afríku og enska stúlkan Trish Johnson en þær hófu leik af 1. teig kl. 8:40 (6:40 að íslenskum tíma). Golfdrottningin Laura Davies og síðan Hannah Burke og  Helen Alfredsson eru í næsta holli.

Þýska heimakonan Martina Eberl-Ellis, hin danska Iben Tinning og hið finnska W-7 módel Minea Blomqvist hefja leik kl. 13:00 (11:00 á íslenskum tíma) af 1. teig og í hollinu á eftir þeim verða  Sandra Gal, Carly Booth og Diana Luna, sem á titil að verja.

Til þess að fylgjast með stöðunni í mótinu smellið HÉR: