Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 1. 2012 | 14:45

LET: Pornanong Phatlum og Bree Arthur leiða eftir 2. hring Hero Women´s Indian Open

Það eru Pornanong Phatlum frá Thaílandi og Bree Arthur frá Ástralíu, sem leiða eftir 2. hring Hero Women´s Indian Open.

Bree Arthur

Phatlum og Arthur  eru búnar að spila á samtals 7 undir pari, 137 höggum; Phatlum (72 65) og Arthur (70 67).  Phatlum átti frábæran hring í dag, lék á 7 undir pari, fékk 8 fugla, 9 pör og 1 skolla. Eins vakti hún nokkra athygli fyrir golfklæðnað sinn, en hún og kylfusveinn hennar voru í „Daly-stíl,“ þ.e. klæddu sig í pils og stuttbuxur s.s. bandaríski kylfingurinn John Daly er gjarnan í.

Er Brianne Arthur, sem alltaf er kölluð Bree, sigrar verður það fyrsti sigur hennar á LET.

Besta hringinn í dag átti sú sem á titil að verja, sænski kylfingurinn Caroline Hedwall, sem jafnaði vallarmet karla á DLF Golf & Country Club í Nýju Delhi í dag. Caroline er í 3. sæti, aðeins 1 höggi á eftir forystukonunum þ.e á samtals 6 undir pari, 138 höggum (76 62).

Í 4. sæti er síðan golfdrottningin Laura Davies á 4 undir pari, 140 höggum (71 69).

Skorið var niður í dag og miðaðist niðurskurður við samtals 8 yfir pari. Meðal þeirra sem ekki komust í gegnum niðurskurð var þýski kylfingurinn Steffi Kirchmayr.

Til þess að sjá stöðuna eftir 2. dag Hero Women´s Indian Open á Indlandi SMELLIÐ HÉR: