Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 1. 2016 | 10:00

LET: Ólafía Þórunn keppir í Abu Dhabi og Indlandi á næstu vikum

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir komst ekki í gegnum niðurskurðinn á Sanya meistaramótinu á LET Evrópumótaröð kvenna sem fram fór í Kína. Ólafía var einu höggi frá því að komast í gegnum niðurskurðinn en hún lék á 75 og 74 höggum eða +5 samtals.

En það eru mörg stór verkefni framundan hjá Ólafíu, sem hefur leik á miðvikudaginn á Fatima Bint Mubarak mótinu sem fram fer í Abu Dhabi. Mótið er hluti af LET Evrópumótaröð atvinnukvenna, sem er sterkasta mótaröð Evrópu.

Að loknu mótinu í Abu Dhabi fer Ólafía til Indlands þar sem hún tekur þátt á LET Evrópumótaröðinni dagana 11.-13. nóvember. Að því loknu fer Ólafía Þórunn til Bandaríkjanna þar sem hún tekur þátt á lokastigi úrtökumótsins fyrir LPGA atvinnumótaröðina í Bandaríkjunum, sem er sterkasta kvenmótaröð heims, en mótið fer fram í lok nóvember og byrjun desember.

Heimild: GSÍ