Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 3. 2012 | 20:45

LET: Michelle Wie og Lexi Thompson á úlfaldabaki í aðdraganda Omega Dubai Ladies Masters

Michelle Wie tvítaði  í gær:

„With lexi on the camel! Poor Nadia…we must have been so heavy“

Lausleg þýðing: „Með Lexi á kameldýrinu! Aumingja Nadia (kameldýrið) …. við hljótum að hafa verið svo þungar.“

Michelle og kameldýrið Nadia

Tilefni þess að myndir voru teknar af þeim stöllum á kameldýri er að nú í vikunni hefst Omega Dubai Ladies Masters í Dubai, í Sameinuðu furstadæmunum og þar á Lexi titil að verja. Verndari mótsins er hennar hátign prinsessan Haya Bint Al Hussein, ein af eiginkonum Sheikh Mohammed Bin Rashid Al Maktoum, varaforseta og forsetisráðherra Sameinuðu furstadæmanna og stjórnanda Dubai.

„Það má vel vera að ég hafi ekki unnið í ár, en leikur minn er að verða stöðugri, sem er gott. Ég var tvisvar meðal efstu 10, einu sinni í 2. sæti og einu sinni í 5. sæti og það sýnir að mér hefir gengið vel þegar litið er á heildina á keppnistímabilinu,“ sagði Lexi.

Kameldýrið Nadia og Lexi Thompson

Í aðdraganda mótsins fóru hún og Michelle Wie á bak kameldýrsins, Nadiu, í gær í Jebel Ali Golf Resort and Spa.

„Michelle og ég skemmtum okkur vel,“ sagði Lexi.

Það er vonandi að þeim gangi vel í mótinu. Lexi verður í holli með Carly Booth og fyrrverandi liðsfélaga Eyglóar Myrru Óskarsdóttur úr Oklahoma State, Caroline Hedwall. Michelle spilar hins vegar með Caroline Masson og Carlotu Ciganda.