Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 29. 2012 | 07:00

LET: Melissa Reid og Lee-Anne Pace meðal þátttakanda í Kína í þessari viku

Hin enska Melissa Reid og Lee-Anne Pace frá Suður-Afríku munu halda áfram vinalegri samkeppni sinni á móti vikunnar á LET,  heimsmeistaramóti kvenna, (ens. World Ladies Championship), sem fram fer í Hainan, Kína og hefst n.k. föstudag. Heimsklassakylfingarnir munu ekki aðeins keppa í 54-holu einstaklingskeppni á The Vintage Course, í Mission Hills Haikou, heldur keppa þeir um heiður og stolt þjóða sinna, en 19 lið, 18 þjóða, keppa.Leikfyrirkomulag þessa móts er einstakt á dagskrá Evrópumótaraðar kvenna (ens.: Ladies European Tour, skammst.: LET) og kylfingar LET eru spenntir að prófa nýja leikfyrirkomulagið.Það er nú þegar nokkur stemning á mótsstað þar sem 56. heimsbikarsmót (í karlaflokki) fór fram s.l. nóvember og geta kvenkylfingar borið mót sitt saman við það.„Ég hef ekki spilað í heimsbikarnum, því miður, en mótið hefir þann þátt sameiginlegan með því að lið spila á móti hvert öðru. Ég held að þeir miði að því að láta það líkjast Ólympíuleikunum í þessari viku þannig að kannski verður það góð æfing fyrir þá leika,“ sagði Pace, sem var efst á peningalista Evrópumótaraðar kvenna 2010 og mun keppa ásamt löndu sinni, Ashleigh Simon, sem vann Portugal Ladies Open, 2011.

„Mótið lítur vel út. Ég held að stöðugleiki verði lykillinn, vegna þess að þegar maður hefir tvo góða kylfinga, sem eru stöðugir sérhvern dag, þá gengur þeim augljóslega vel eða munu sigra. Stundum þegar spilaður er betri bolti eða fjórmenningur þá er hægt að vera heppinn og annar kylfingurinn getur borið hinn, þannig að ég held að það sé gott fyrirkomulag fyrir heimsmeistaramót.“

Reid and Pace outside the Mission Hills Spa

Melissa Reid, sem varð í 2. sæti á peningalista LET, mun verða fulltrúi Englands ásamt Florentynu Parker í liðakeppninni. „Það er skrítið að spila sem lið, en spila aldrei við félag sinn. Þetta verður áhugavert, en ég lít bara á þetta sem venjulegt mót,“ sagði Melissa, sem vann tvívegis á LET á síðasta ári, á Spáni og í Hollandi. „Ég hef í raun aldrei leikið skv. þessu fyrirkomulagi áður.“

Alls taka 108 kylfingar þátt frá 25 þjóðum þ.á.m. kínverski kylfingurinn Shanshan Feng, sem er nr. 12 á heimslistanum og talin sigurstrangleg bæði í einstaklings- og liðakeppninnni.

Melissa Reid sagði: „Ég held að England eigi góða möguleika og það eru Kínverjarnir sem verður að sigra þessa viku. Shanshan er augljóslega frábær kylfingur. Ég var að tala við hana í síðustu viku og við vorum að tala um að þetta yrði góð keppni hér í Kína.“

Pace, sem sigraði á Sanya Ladies Open í Hainan, 2010 var sjálfsöryggið uppmáluð f.h. Suður-Afríku: „Ég held að við eigum góða möguleika.  Ashleigh er ansi hreint góður kylfingur og alltaf stöðug. Ég er að spila vel í augnablikinu og gekk allt í lagi í Ástralíu.“

Í liðakeppninni keppir Feng með löndu sinni  Liying Ye, sem spilar á japönsku LPGA Tour og var í 2. sæti á eftir Anniku Sörenstam á Suzhou Taihu Ladies Open, 2008.

Hitt kínverska liðið,  samanstendur af þeim Yuyang Zhang og Jiayun Lee. Zhang komst á LET eftir að hafa farið í gegnum Q-school LET í La Manga Club á Spáni í janúar s.l. og keppir á fyrsta LET móti sínu á heimavelli.

Mótið fer fram frá föstudeginum 2. mars til sunnudagsins 4. mars og komast 50 efstu kylfingar og þær sem eru jafnar í 50. sæti áfram eftir niðurskurð eftir 36 holur. Þær sem komast ekki í gegnum niðurskurð munu samt spila með liðum sínum á sunnudag.

Í gær var veðrið í Hainan fremur kalt, 15 gráður á Celsius með léttum rigningaskúrum, en búist er við hitabeltishita á fimmtudag þegar Pro-Am hluti mótsins fer fram, áður en aðalmótið hefst.