Ragnheiður Jónsdóttir | september. 16. 2012 | 09:00

LET: Martina Eberl Ellis hættir í golfi – viðtal

Hér á eftir fer í lauslegri þýðingu viðtal golftime.de við einn besta þýska kvenkylfing síðustu 10 ára… Martinu Eberl-Ellis.  Hún er að hætta í keppnisgolfi því hún á von á 2. barni sínu í apríl 2013.

Martina, sem fæddist 29. júní 1981 í München, í Þýskalandi  (er 31 árs)vissi mjög ung að aðeins atvinnumennskan í golfi kæmi til greina sem aðalatvinnugrein hennar. Því var það að 26. nóvember 2002 lét hún verða af því og gerðist atvinnumaður í golfi. Á 10 árum sínum í kastljósi meginlandsins sem einn besti kvenkylfingur Þýskalands var sjónum oft beint að búlimíu-vanda hennar og eins sambandi hennar til fjölda ára með skíðagöngumanninum Tobias Angerer.

Í dag er Martina gift Tim Ellis (síðan 2010) og á með honum dótturina Linda Marie Klara Ellis, sem fæddist 2. nóvember 2010.  Hápunktar í ferli hennar eru sigrar hennar á Evrópumótaröð kvenna þ.e. í Madrid Ladies Masters (2007), BMW Ladies Open (2008) og Nykredit Masters (2008), en þetta voru 3 sigrar innan 12 mánaðar tímabils.

Martina ásamt Tim Ellis, eiginmanni sínum á brúðkaupsdaginn.

Eftir UNIQA Ladies Golf Open í Austurríki nú fyrr í mánuðnum (haldið 2.-4. september) sagði hún skilið við keppnisgolfið, til þess að undirbúa sig undir fæðinguna og til að geta verið meira með litlu dóttur sinni.  Hér fer viðtal golftime.de við Eberl-Ellis:

Frú Eberl-Ellis þér gáfuð þegar út fyrir byrjun UNIQA Ladies Golf Open í Austurríki að þetta yrði síðasta mót yðar sem atvinnumanns. Eiginlega ætluðuð þér ekki að hætta fyrr en í Dubai. Af hverju þessi ákvörðun að hætta fyrr?

Mér fannst Austurríki passandi lok á erli mínum þar sem ég hef spilað í þessu móti oftast af öllum LET mótum og ég gat haft fjölskyldu mína með á það. Pabbi hefir verið með mér frá fyrsta móti mínu (Q-school í Grenoble) og fyrrverandi kylfuberi minn og vinur „Mörtl“ Tscheliesnig hefir líka verið með mér frá byrjun. Eiginmaður minn, Tim, dóttir mín Linda og mamma mín voru líka við hlið mér. Það hafði mikla þýðingu fyrir mig, sem hefði verið ómögulegt í Dubaí. Eins hefði ég þurft að vera við æfingar frá sept-des og mig vantar einfaldlega tímann og löngunina til þess.

Martina Eberl ásamt dóttur sinni Lindu

Tíu ár í atvinnumennskunni þýðir mikið þol, æfingar og mikið af ferðalögum. Hefir allt erfiðið borgað sig þegar horft er aftur?

Ég er mjög viss um að það hefir borgað sig hvað varðar árangur, styrktaraðila og fjármál. Það sem gaf mér alltaf mikið var að kynnast svo mörgu áhugaverðu og yndislegu fólki á vegi mínum, að hafa lært að tala ensku jafnvel og þýsku og átt mikið af jákvæðum reynslum. Auðvitað hlaut ég líka minn skammt af ergelsi, tárum, blöðrum á höndum og fótum, vöðvabólgum og fullkomnunaráráttu en eins og maður segir á þýsku „Ohne Fleiß kein Preis“ sem á ensku útleggst eitthvað í áttina sem „No Pain No Gain“ (INNSKOT: og mig vantar íslenska samsvörun). Ég hef aldrei séð eftir að hafa valið þessa leið, aðeins heimþráin stóð mér oft í vegi, sem hefir samt batnað með árunum.

Hvert er besta augnablikið á ferlinum?

Það var fyrsta höggið mitt í Gut Häusern á UniCredit Ladies German Open styrktu af Audi  árið 2009. Ég var í síðasta hollinu ásamt vinkonu minni Paula Marti. Þúsundir klöppuðu áður en ég sló.  Því miður vann ég ekki, en þessi vika var svo brjálæðislega skemmtileg að hún stendur jafnvel ofar öllum sigrum mínum í minningunni.

Martina Eberl-Ellis

Hvaða atburð eða tímabil mynduð þér vilja stroka út af ferli yðar ef þér gætuð, vegna þess að hann/það var ekki þægilegt?

Það er örugglega tíminn fyrir lokaúrtökumót LPGA Q-school árið 2008 í Bandaríkjunum. Ég ákvað að fara í tíma til þjálfara Leadbetters í Champions Gate (Orlando, Florida) og var þar í 3 vikur fyrir lokaúrtökumótið.  Það var þessi óslökkvandi þrá að verða alltaf betri sem dró mig þangað og líka það að öðlast loksins góða sveiflu. Þegar horft er tilbaka get ég ekki annað en hrist höfuðið. Ég missti af kortinu mína á LPGA með 2 höggum. Eftir þessar vikur var ég ekki eins stöðug og á mánuðunum þar áður, auk þess að meiðsli í handlegg komu í veg fyrir að ég fengi sæti í Solheim Cup 2009. Stundum hugsa ég með mér að þetta hafi allt haft sínar ástæður – ef ég hefði spilað í Bandaríkjunum væri ég ekki hér í dag með það í höndum sem ég ánú. Ef ég hefði komist í Solheim Cup liðið hefði ég virkilega náð öllu sem ég vildi ávallt. Kannski var þetta kennslustund í auðmýkt fyrir mig. Ég reyni a.m.k. að sætta mig við þessa ósigra.

Munuð þér áfram taka þátt í atvinnumennsku á einhvern hátt í golfi eða ætlið þér að einbeita yður að eiginn golfskóla (Martina opnaði eiginn golfskóla í apríl á síðasta ári, 2011Martina Eberl Golf Academy)?

Ég ætla að koma að atvinnumennskunni í einhverju formi áfram. En golfskólinn tekur nú yfir stórann hluta lífs míns, en ég vil gera meira með allri reynslu minni. Hvort sem það er að stuðla að vexti nýju kynslóðar kylfinganna innan klúbbanna og með einstaka mótum og fréttaskýringum ásamt öðru sem á bara eftir að koma í ljós og á óvart.

Martina Eberl-Ellis einn besti kvenkylfingur Þýskalands undanfarin 10 ár segir skilið við keppnisgolfið.

Þér þekkið þýsku golfsenuna vel. Hver gæti skv. yður, fyrir utan Caroline Masson haldið þýska flagginu á lofti í golfinuog hvern komið þér auga á sem gæti náð að gerast atvinnumaður af unglingunum í dag?

Sandra Gal gaf gagnrýnendum sínum langt nef eftir góða frammistöðu á US Open. Ég veit sjálf hversu erfitt er að ná sæti ofarlega á Opna bandaríska og spila svona stöðugt og vel eins og hún er búin að gera í ár. Þýskaland er vel sett í Rio 2016 með Caroline Masson og Söndru Gal. Ég spilaði síðan á LGO (Ladies German Open) með hinni ungu Karolin Lampert, sem á margt eftir ólært, en hún hefir líka tímann fyrir sér. Hún er nýlega orðin þýskur meistari og er með eitthvað í sér sem eflaust á eftir að verða stórt. Hinar stelpurnar þekki ég of lítið. Þær verða bara að láta verða af því að verða atvinnumenn. Þessi langa bið gerir þær ekki betri. Annaðhvort ráða þær við það eða ekki. Það má ekki vera hrædd. Áhugamannsgolfið missir sjarma sinn einhver tímann og færir þeim ekkert lengur. Því miður elska margar þægilegt líf heima fyrir, sem er alger andstæða túrsins og það heillar síðan ekki.

Er eitthvað sem þér mynduð vilja segja áhangendum yðar í lokin á þessari kveðjustund? 

Ég get bara sagt TAKK við alla styrktaraðila mína, áhangendur, fjölskyldu, umboðsaðila, þjálfara og vini. Án þessa risaliðs er árangur í atvinnumennsku einfaldlega ekki mögulegur. Mér hefði aldrei tekist þetta einni. Ég tek bara ofan fyrir öllum sem hafa alltaf stutt mig og rétt hjálparhendi þegar eitthvað var ekki eins og ég helst vildi. Ég mun aldrei gleyma þessum tíma. Hann var æðislegur!