Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 19. 2011 | 16:00

LET: Mari Suursalu – fyrsti eistneski kvenatvinnukylfingurinn

Mari Suursalu er brautryðjandi þar eð hún er fyrsti kvenatvinnukylfingurinn frá Eistlandi. Þessi 25 ára stúlka er frá Tallinn, höfuðborg Eistlands og aðeins 1 af 3 atvinnukylfingum í Eistlandi.

Mari Suursalu

Bróðir hennar, Mark, 20 ára og vinur þeirra Egert Põldma, 22 ára, gerðust báðir atvinnukylfingar og spila í Estonian Golf and Country Club, einum af 3 keppnisgolfvöllum í Eistlandi.

Klúbburinn er á norðurströndinni – og er golfvöllur klúbbsins viðurkenndur sem keppnisvöllur. T.a.m. fór þar fram úrtökumót fyrir  Omega Mission Hills World Cup í ágúst. Á næsta ári fer þar einnig fram 2012 Estonian Open.

Mari er fædd og uppalin í Tallinn og lærði að spila golf af fjölskyldu sinni. Hún gerðist atvinnumaður í árslok 2008. Síðastliðin 3 ár hefir hún verið að spila á sænsku Nordea Tour mótaröðinni, en bætti við nokkrum mótum af áskorendamótaröð Evrópumótaraðar kvenna þ.e. LET Access Series (skammst. LETAS)  á dagskrá sína, þegar sú mótaröð hóf göngu sína í fyrra, 2010.

Mari á enn eftri að ná niðurskurði á LETAS en henni finnst mótaröðin ágætur stökkpallur á Evrópumótaröð kvenna.

„Mér finnst gaman að spila á LETAS. Markmið mitt er að spila á LET, en þetta er það besta sem býðst í augnablikinu: Nordea Tour og LETAS,“ sagði hún. „Ég er ákveðin að fara í LET Q-school á næsta ári, en ég hef þrívegis áður farið.“

Það eru meira en 1.000.000 ferðamenn sem heimsækja Eistland á hverju ári og það er aðeins 4 tíma akstur frá einni hlið landsins til hinnar. Veturnir eru kaldir en móttökurnar hlýjar (líkt og á Íslandi!)

Það eru einungis 2000 kylfingar og 8 golfvellir í Eistlandi þannig að Mari er sérstök að þessu leyti. Hún segir að LETAS sé kjörin mótaröð fyrir sig að keppa á, á móti öðrum alþjóðlegum kylfingum.

„Ég hef unnið marga titla í Eistlandi en samkeppnin þar stenst engan samanburð (við LET eða LETAS),“ segir hún.

Þar til í júní (2011) nam hún íþróttafræði við háskólann í Tallinn en henni finnst líka gaman í öðrum íþróttum. Áhugamálin fyrir utan íþróttir eru lestur, leikhús og tónlist.

Næst spilar Mari á Murcia Ladies Open í La Manga á Spáni.

Reynsla hennar þar er ágætis undirbúningur fyrir Q-school LET, sem fram fer í La Manga Club 6.-20. janúar 2012.

Heimild: LETAS