Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 9. 2012 | 14:00

LET: Carlota Ciganda í sögubækurnar – Er fyrsti kylfingurinn í 27 ár sem er efst á peningalistanum og nýliði ársins

Spænski kylfingurinn Carlota Ciganda hefir skrifað sig í sögubækurnar fyrir að verða fyrsti LET kylfingurinn í 27 ár til þess að verða efst á ISPS Handa Order of Merit (peningalista LET) og hljóta jafnframt titilinn Nýliði ársins. Fyrir 27 árum var það Laura Davies, sem vann þetta afrek.

Hinn 22 ára Ciganda frá Pamplona á Spáni náði þessum glæsta árangri eftir að hafa tvívegis sigrað á nýliðaári sínu auk þess að hafa 9 sinnum verið meðal 10 efstu í mótum.

Hún er aðeins 3. spænski kylfingurinn til þess að sigra á peningalista LET og reyndar bætti hún enn einni rós í hnappagatið þegar hún var valin Kylfingur ársins af leikmönnum LET.

Carlota Ciganda

Ciganda var að vonum ánægð að ná 1. sætinu en fyrir það hlýtur hún 1 árs undanþágu til að spila á LET og € 20.000 aukabónus.

Í 2. sæti á peningalistanum varð þýski kylfingurinn Caroline Masson, sem nú nýverið tryggði sér kortið sitt á LPGA fyrir 2013 keppnistímabilið í gegnum Q-school á Daytona Beach og verður væntanlega mun tekjuhærri en Ciganda á næsta ári.

Carlota sagði við það tilefni þegar henni var afhentur aukabónusinn og verðlaunagripur til minnis um einstakt nýliðaár sitt: „Það er heiður að verða efst á peningalistanum sem nýliði og ég er mjög ánægð. Það eru forréttindi að fá að stíga í fótspor Lauru Davies. Ég spilaði mikið með henni í ár og ég held að það ahfi verið gott fyrir mig vegna þess að ég lærði svo margt. Hún er svo hæfileikarík og ég held að hún sé einn af bestu kylfingum allra tíma í golfi.“

„Ég sigraði á tveimur frábærum mótum í Hollandi og Kína og það var frábært. Ég hef verið að spila út um allt og skemmta mér. Þetta hefir verið mjög gott ár. Vonandi get ég unnið fleiri titla í framtíðinni.“