Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 1. 2012 | 09:00

LET: Anastasia Kostina fyrsti sigurvegari Rússlands á LET Access fær þátttökurétt á Deloitte Ladies Open sem hefst í dag

Í dag hefst í Golf Club Broekpolder í Rotterdam Hollandi, Deloitte Ladies Open, en mótið er hluti af Evrópumótaröð kvenna.

Meðal þátttakenda er  rússneski kylfingurinn Anastasia Kostina sem varð fyrst rússneskra kylfinga til að sigra á LET Access Series. Kostina átti 4 högg á belgísku stúlkuna Bénédicte Toumpsin, sem leiddi fyrir lokahringinn. Sigurinn vannst í Úkraínu í GolfStream Ladies Open og meðal sigurlauna er að Kostina fær að taka þátt á Deloitte mótinu í Hollandi, sem er hluti af Evrópumótaröð kvenna eins og áður segir.

Kostina sagði fyrir Deloite mótið í Hollandi: „Það er frábært að vera hér, vegna þess að þó að ég hafi hlotið boð á mót áður finnst mér eins og í fyrsta sinn að ég hafi unnið fyrir veru minni hér. Það er gott vegna þess að ég var að spila vel og var ekki bara heppin.  Þetta virðist vera eitt af stærri mótunum á Evrópumótaröð kvenna eftir því sem stelpurnar segja og áhorfendurnir hér og vellirnir eru frábærir þannig að þetta er allt öðruvísi.

„Ég hef spilað á nokkrum mótum á LET Access og allt hér er stærra þannig að ég er mjög spennt. Ég ætla mér bara að spila eins og ég hef verið að spila og þá verður allt í lagi. Ég væri ánægð ef ég næði niðurskurði. Ég ætla bara að spila mitt golf og hugsa ekkert allt of mikið um niðurstöðuna.“

Anastasia hefir spilað á 7 mótum á LET, tvisvar í Tyrklandi, einu sinni í Tenerife og 4 sinnum í  European Nations Cups.

Hún er sem stendur 3. á stigalista LET Access.

Anastasia Kostina

Sigur Anastasíu Kostinu hefir vakið athygli á golfíþróttinni í heimalandi hennar, Rússlandi, þar sem það verður sífellt vinsælla m.a. vegna þess að nú er golf keppnisgrein á Olympíuleikunum 2016.

Um það sagði Anastasía: „Það var indælt að fólk tók eftir sigri mínum. Við erum með rússneskt golfsamband og þeir hafa breytt um mannskap sem vinnur fyrir sambandið. Þeir hafa verið mjög afkastamiklir í því sem þeir hafa gert á s.l. ári. Sambandið hefir hjálpað mér mikið og komið á laggirnar liðum áhugamanna og nokkrum atvinnumönnum og við vorum með frábæra æfingaferð til Bandaríkjanna og við erum send á mót. Sambandið sér líka um tengsl við fjölmiðla og ég fékk nokkur viðtöl og fór á nokkrar (golf) sýningar sem var mjög fínt.

„Golfheimurinn er svo lítill í Rússlandi – allir þekkja alla. Það var gaman að fá símrhringingar frá nánast öllum og hamingjuóskir.“

„Ég man þegar systir mín fékk þátttökurétt á Opna bandaríska kvennamótið (risamót).  Þetta var mikið umstang; þetta var sögulegt hjá henni þar sem hún var fyrsti rússneski kylfingurinn til þess að spila á Opna bandaríska kvennamótinu. En það var í Bandaríkjunum og hafði ekki mikil áhrif (heima fyrir í Rússlandi). Enginn í Rússlandi vissi nokkuð um hvað hún hafði afrekað sem var synd því bandarískir golffjölmiðlar gerðu mikið úr þessu. Rússunum fannst þetta ekki mikið tiltökumál. Í þetta sinn er allt öðruvísi og allir tóku eftir þessu.

Anastasia Kostina.

Það að golf er keppnisgrein á Olympíuleikunum hefir haft í för með sér að yfirvöld styðja nú golfíþróttina (í Rússlandi) og upprennandi afrekskylfinga. „Þetta er núorðið að nokkru styrkt af ríkinu en mestmegnis í gegnum styrktaraðila og hefir rússneska golfsambandið unnið gott starf að finna þá.

„Við erum með mjög hæfileikaríka unga krakka en það er eins og þeir séu svolítið feimnir. Það var fyndið daginn eftir að ég vann voru tveir strákar frá Rússlandi á skori upp á -3 og -4 undir pari, skori sem þeir höfðu aldrei áður verið á. Þetta eru virkilega góðir kylfingar og kannski þurftu þeir bara einhvern sem sýndi þeim að þeir gætu þetta líka og byrjuðu að trúa á sjálfa sig.“

Anastasia Kostina hefir tekið þátt í mörgum æfingaferðum með rússneska golfliðinu þ.á.m nú nýlega í Flórída sem og æfingum á vegum Faldo Series. Hún vonar að sigur hennar veiti ekki bara nýrri kynslóð kylfinga innblástur heldur líka að vegur golfíþróttarinnar í Rússlandi aukist.

Heimild: LET