Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 11. 2016 | 17:59

LET Access: Valdís í 5. og Ólafía Þórunn í 12. sæti á Ribeira mótinu á Spáni e. 1. dag!!!

Það er aldeilis stórglæsilegur árangur hjá þeim Valdísi Þóru Jónsdóttur atvinnukylfingi úr GL og Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur, atvinnukylfingi úr GR á 1. keppnisdegi á sterku LET Access móti, sem fram fer á Spáni.

Þær taka báðar þátt í  Ribeira Sacra Patrimonio de la Humanidad International Ladies Open 2016, en mótið er hluti af LET Access mótaröðinni.

Mótið fer fram á golfvelli Augas Santas Balneario & Golf Resort í Lugo, á Spáni.

Valdís Þóra átti stórglæsilegan 1. hring, lék á flottum 2 undir pari, 66 höggum; fékk 4 fugla, 12 pör og 2 skolla. Valdís Þóra er T-5, þ.e. deilir 5. sætinu með besta kvenkylfingi Svisslendinga Caroline Rominger og Maríu Parra, frá Spáni eftir 1. dag.

Ólafía lék á sléttu pari, 68 höggum; fékk 5 fugla, 8 pör og 5 skolla og er T-12 þ.e. deilir 12. sætinu með 9 öðrum keppendum, sem einnig voru á parinu í dag.

Efst í mótinu eftir 1. dag er finnski kylfingurinn Sanna Nuutinen, sem lék á 4 undir pari, 64 höggum; fékk 6 fugla (m.a. 4 í röð á 3.-6. braut) og 2 skolla.  Þess ber að geta að Sanna varð T-2 í þessu sama móti í fyrra.

Sjá má stöðuna á Ribeira mótinu eftir 1. dag með því að  SMELLA HÉR: