Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 7. 2018 | 23:00

LET Access: Guðrún Brá og Valdís Þóra úr leik í Terre Blanche mótinu

Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili og Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni eru úr leik á Terre Blanche Ladies Open 2018, en mótið er mót á LET Access mótaröðinni og fer fram á samnefndum velli í Tourrettes, Frakklandi.

Aðeins munaði 1 höggi að Valdís Þóra kæmist í gegnum niðurskurð, en hún lék á samtals 7 yfir pari, 151 höggi (77 74), en niðurskurður var miðaður við samtals 6 yfir pari eða betra eftir 2 hringi.  Valdís Þóra bætti sig eins og sjá má um 3 högg milli hringja!

Aðeins meira vantaði upp á að Guðrún Brá næði niðurskurði, en hún var hins vegar að keppa í 1. móti sínu á LET Access mótaröðinni.

Guðrún Brá lék á samtals 11 yfir pari, 155 höggum (80 75) en eins og sjá má bætti hún sig um heil 5 högg milli hringja og hefði komist í gegnum niðurskurð hefði hún spilað 1. hringinn jafnvel og hringinn í dag.

Það var sem sagt bæting hjá báðum milli hringja, en dugði því miður ekki til að þessu sinni.

Sjá má stöðuna á Terre Blanche mótinu með því að SMELLA HÉR: