Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 25. 2017 | 17:20

LEK: Guðmundur Ara og Þórdís Geirs efst á Landsbankamótinu!!!

Í dag fór fram 1. mótið á Öldungamótaröðinni, Landsbankamótið og var leikið á Húsatóftavelli, í Grindavík.

Efst í karla- og kvennaflokki urðu þau Guðmundur Arason, GR og Þórdís Geirsdóttir GK, þ.e. í höggleik án forgjafar.

Guðmundur var sá eini sem lék undir pari vallar þ.e. á 1 undir pari, 69 glæsihöggum og Þórdís var á 3 yfir pari, 73 höggum.

Í höggleik með forgjöf eru á þessari stundu eru efst Vignir Sigurðsson, GO og Laufey Valgerður Oddsdóttir, GR; Vignir á 69 nettó og Laufey á 71 höggi, nettó.

Þó nokkrir eiga eftir að ljúka keppni þegar þessi frétt er skrifuð, þannig að staðan gæti enn breyst.

Þátttakendur eru alls 148 og má fylgjast með stöðunni með því að SMELLA HÉR: 

Landsbankamótið er hluti af Öldungamótaröðinni og er til viðmiðunar til vals á landsliðum LEK árið 2018.

Mótið er opið öllum kylfingum 50 ára og eldri. Þeir sem náð hafa aldri þegar landslið keppir 2018 geta tekið þátt og fengið stig vegna landsliðs.

Aldursmörk miðast við að þátttakendur hafi náð tilskyldum aldri þegar Evrópumót viðkomandi flokks fer fram á árinu 2018.

Konur mega velja hvort þeir leika af bláum eða rauðum teigum en aðeins þær sem leika af bláum teigum, eða sambærilegum, vinna stig til landsliðs.

Karlar 50-54 og 54+ leika af gulum teigum, eða sambærilegum.

Karlar 69+ mega velja hvort þeir leika af gulum eða rauðum teigum en aðeins þeir sem leika af gulum teigum, eða sambærilegum, vinna stig til landsliðs.

Verðlaun:

Verðlaun í Öldungamótaröðinni eru veitt stigahæsta karli og stigahæstu konu með og án forgjafar að loknum öllum mótum ársins. Verðlaun í hverju móti verða veitt fyrir 3 efstu sætin í punktakeppni kvenna og 3 efstu sætin í punktakeppni karla. Verðlaun eru gjafabréf frá Golfbúðinni Dalshrauni 10. Verðlaun í flokki kvenna: Fyrstu verðlaun eru kr. 30.000, önnur verðlaun kr. 20.000, þriðju verðlaun kr. 10.000 og kr. 30.000 fyrir besta skor af bláum teigum (eða sambærilegum).

Verðlaun í flokki karla: Fyrstu verðlaun eru kr. 30.000, önnur verðlaun kr. 20.000, þriðju verðlaun kr. 10.000 og kr. 30.000 fyrir besta skor af gulum teigum (eða sambærilegum).

Nándarverðlaun verða veitt á a.m.k. tveimur par 3 brautum.

Ef jafnt er í mótslok hvort sem er án forgjafar eða í punktakeppni gildir 5. gr. a liður í móta-og keppendareglum GSÍ frá apríl 2016 þó skal ekki fara fram umspil né bráðabani.