Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 26. 2013 | 20:00

Lee Westwood ræður Foster aftur á pokann hjá sér

Lee Westwood hefir aftur ráðið náinn vin sinn og fyrrum kylfusvein á pokann hjá sér, en hann mun á næsta ári reyna að krækja sér í einn risamótssigur.

Foster var á pokanum hjá Westwood í 3 ár, en á þeim tíma vann Westwood 8 mót og varð meðal efstu 3 á 6 risamótum og tókst m.a. að velta sjálfum Tiger Woods úr 1. sæti heimslistans, en Westwood var nr. 1 í 22 vikur.

Það skildu leiðir hjá Foster og Westwood, þegar Foster meiddi sig á hné í fótboltaleik og gat ekki dregið lengur. Westwood réði þá Mike Kerr sem tímabundinn afleysingarmann á pokann hjá sér, en það lengdist í því þar sem Foster náði sér ekki alveg strax.

En nú á einu af þeim mótum sem Westwood spilaði í kom umboðsmaður hans, Chubby Chandler ásamt Foster og útkoman er að Foster er aftur kominn á pokann hjá Westy.  Þeir munu vera saman í næstu viku á World Challenge, móti þar sem Tiger Woods er gestgjafi og haldið er í Sherwood Country Club í Thousand Oaks, Kaliforníu.

Í viðtali við  Daily Telegraph, sagði Chandler „Allir vita að Lee og Billy voru frábærir saman og það er því ekki nema skynsamlegt nú þegar Billy er búinn að ná sér að þeir vinni saman aftur.“

„Þeir hlægja að sömu brandurunum, þeir eru báðir fljótir upp og Billy veit þegar segja þarf eitthvað við Lee. Og, auðvitað, er hann síðan líka frábær kylfusveinn.“

„Þannig að þeir ræddu saman og komu sér saman um hluti sem varð að koma sér saman um og Billy mun aftur vera á pokanum hjá Lee ótímabundið og byrjar hann í móti Tiger í næstu viku. Mike [Kerr] er topp náungi og fyrirtaksmaður og hann tók ákvörðun Lee eins og við var búist.“

Foster hefir verið á pokanum hjá Thomas Björn og Branden Grace í millitíðinni. Hann vann þar áður fyrir  Seve Ballesteros, Sergio Garcia, Darren Clarke og í eina viku hjá Woods.

Fyrst var talið að Foster yrði aðeins frá í nokkrar vikur en síðan kom í ljós að hann þurfti í aðgerð með hnéð á sér og því varð Westwood að taka ákvörðun sem Foster sagði að hann hefði verið niðurbrotinn eftir.

„Mér leið eins og konan mín hefði stungið af með besta vini mínum,“ sagði Foster. „Þetta er líklega mesta uppáhaldsstarf sem ég hef nokkru sinni gegnt (þ.e. að vera á pokanum hjá Westwood).

Nú er hnéð að fullu gróið og hann heill heilsu á ný. Hann bætti við: „Auðvitað hriktir og brestur í því, en mig verkjar ekkert í því,“

Lee Westwood tekur þátt í móti Tiger í næstu viku, svo verður hann í liði með Ian Poulter í Shark Shootout í þarnæstu viku. Síðan tekur hann sér jólafrí en hefur leik að nýju á Farmers Insurance Open, 23. janúar n.k.

„Þetta hefir verið ár umbreytinga hjá Lee, þar sem hann flutti með fjölskyldu sína til Flórída og allt það,“ sagði Chandler. „Við sáum brot af rétta Lee Westwood í Dubai (þar sem hann varð í 5. sæti) fyrir 2 vikum síðan og nú þegar hann er kominn með Billy á pokann aftur þá er ég viss um að allt mun ganga vel hjá honum.“