Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 3. 2013 | 10:00

Lee Westwood kann vel við sig í Flórída

Lee Westwood frá Notthinghamshire á Englandi hefir staðið í flutningum síðan um  jólaleytið, frá Englandi til Flórída  og …. honum líður nú þegar bara eins og heima hjá sér á nýja staðnum.

„Það eru lífsgæðin hér og hversu allt er auðvelt. Ekkert er vandamál og það er algert dekur að spila á þessari mótaröð (PGA),“ sagði Westwood við blaðamenn eftir að hann kom inn á 70 höggum á 3. hring  Honda Classic í gær og er nú aðeins 2 höggum á eftir forystumönnunum þeim Guthrie og Thompson.

Í síðustu viku var endanlega gengið frá  flutningunum og allt orðið löglegt og opinbett og nú er heimili Westwood rétt við Old Palm golfklúbbinn aðeins  2 mílur frá næsta móti og allt umhverfið mjög ólíkt heimabæ hans, Worksop, sem er í 20 mílna fjarlægð frá Sheffield.

„Þegar ég geng á 17 og þeir segja að ég sé frá Palm Beach Gardens, þá er meira klappað fyrir því en þegar tilkynnt var að ég væri frá Worksop, það er alveg öruggt,“ grínaðist Lee með.

„Stuðningur áhangenda í Bandaríkjunum hefir alltaf verið mikill en hann er líklega aðeins meiri núna eftir að ég fluttist til Bandaríkjanna,“ sagði Lee.

Það tók Westwood tíma að flytjast frá æskustöðvunum og ólíkt þeim Luke Donald og Graeme McDowell spilaði hann ekki í bandaríska háskólagolfinu og stóðst því lengi vel freistinguna að kaupa sér hús og gera Flórída að aðalheimili sínu.

Þess í stað hélt hann sig á Englandi í Worksop, þar sem veðrið var ekki alltaf upp á marga fiska til æfinga og mismunandi hraði á flötum gerði það að verkum að hann var alltaf svolítið seinn í gang þegar keppnistímabilin hófust.

„Ég var bara orðinn pirraður á veðrinu og vetrunum á Englandi og því að geta ekki unnið eins mikið í leik mínum og ég vildi og vera alltaf ryðgaður í upphafi keppnistímabila,“ sagði Lee.

„Ég vildi bara búa í sólskininu.“

Aðaláhyggjuefnið var hvernig eiginkonu hans, Laurae og börnunum hans tveimur, Sam og Poppy, myndi hugnast flutningurinn en að svo komnu eru allir ánægðir með gang mála.

„Allir elska þetta að svo komnu, fjölskyldan er búin að koma sér vel fyrir, sem var aðaláhyggjuefni mitt, m.a. hvernig börnunum gengi að aðlagast nýjum skóla en þau eru búin að eignast marga vini nú þegar,“ sagði hann.

Ef Westwood sigrar á Honda Classic í kvöld er það enn önnur sönnunin fyrir því að flutningarnir hafi borgað sig.

„Ég er búinn að sigra 40 sinnum á ferli mínum en aðeins 2 sigrar hafa unnist  í Bandaríkjunum og ég verð að reyna að breyta því,“ sagði Westwood.

„Ég hef oft komið mér í sigurstöðu en ekki tekist að klára. Vonandi hef ég með flutningi mínum hingað (til Flórída) gefið sjálfum mér fleiri tækifæri til að spila og fá tilfinningu fyrir að „vera hluti af hópnum“, þannig að ég geti byrjað á að sigra oftar hér.“