Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 3. 2013 | 23:30

Lee Janzen vikið úr úrtökumóti fyrir Opna bandaríska

Tvöfalda risamótsmeistaranum Lee Janzen var vikið úr úrtökumóti fyrir Opna bandaríska fyrir að vera með járnbrodda undir golfskónum sínum á velli þar sem það er bannað.  Hann hefir einmitt tvívegis sigrað á Opna bandaríska, 1993 þ.e. fyrir 20 árum og 1998 fyrir 15 árum

Janzen var að spila á 36 holu úrtökumótinu fyrir Opna bandaríska á Woodmont Country Club. Hann var á 75 höggum á Norðurvellinum þegar upp komst að hann var með járnbrodda undir skónum.

Öllum leikmönnum var tilkynnt um reglu gegn járnbroddum í bréfi bandaríska golfsambandsins frá 20. maí s.l.

Janzen  sagði á Twitter að reglan hefði verið send honum í tölvupósti. Hann sagði að hann hefði meiri áhyggjur af leik sínum en að sér hefði verið vikið úr mótinu. Skor hans upp á 75 olli því að mjög ólíklegt var hvort eð er að hann hefði náð að vinna sér inn eitt af 8 sætunum sem í boði voru til þátttöku á Opna bandaríska á Merion.