Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 31. 2013 | 14:00

Laura Davies gæti hugsað sér að vera fyrirliði í Solheim Cup

Það gæti verið að Laura Davies komist ekki í Solheim Cup lið Evrópu í fyrsta sinn frá upphafi keppninnar.

Og þetta er líka í fyrsta sinn sem Davies hefir orðað þá ósk sína að í framtíðinni gefi hún kost á sér að vera fyrirliði evrópska Solheim Cup liðsins.

Hún orðaði þá ósk sína í viðtali á GolfChannel.com í dag, en þar sagði hún m.a.:

„Mér finnst ótrúlegt að Solheim Cup hafi aldrei farið fram á Englandi. Það hafa verið fleiri kylfingar frá Englandi í evrópska Solheim Cup liðinu en frá öðrum þjóðum að frátöldu Svíþjóð. Þannig að ef Solheim Cup verður nokkru sinni haldið í Englandi, myndi það koma til álita (að ég yrði fyrirliði) ef þau vilja mig.“

Ef þau vilja hana?

Davies, sem verður 50 ára í ár hefir unnið til flestra titla í sögu Solheim Cup. Hún er eini kylfingurinn sem hefir verið með í öllum mótum til þessa þ.e. 12 Solheim Cup mótum. Hún á metið yfir flesta spilaða leiki í mótinu (46) og hún hefir unnið sér inn flest stig (25) og hvað unna leiki varðar er hún jöfn Anniku Sörenstam, en báðar hafa unnið 22 leiki.

Í ár fer Solheim Cup fram í Colorado Golf Club dagana 14.-16. ágúst.  En 2015 fer Solheim Cup fram í Golf Club St. Leon-Rot í Heidelberg, í Þýskalandi. Næsta Solheim Cup mót í Evrópu þar sem eftir á að ákveða mótsstað í Evrópu er ekki fyrr en eftir 6 ár þ.e. 2019.

Sem leikmaður þarf Davies að ganga vel á Women´s British Open risamótinu, sem hefst á morgun til þess að koma til álita hjá fyrirliðanum Liselotte Neumann, sem er Svíi. Margir telja af því einu að Davies eigi ekki séns á að komast í liðið til þess að hún fái ekki tækifæri til þess að vinna fleiri leiki en hin sænska Sörenstam.

Davies er þó ekki ein þeirra sem hugsa svo.

„Í augnablikinu hugsa ég um ekkert annað en Opna breska,“ sagði Davies. „Ef ég spila vel, getur svo verið að Lotte taki mig í liðið. Ef ekki, getur svo farið að hún geri það samt.  Ef ég kemst ekki í liðið verða það vonbrigði og ég get aðeins kennt sjálfri mér um.“