Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 13. 2012 | 09:00

Larry Nelson vonsvikinn að vera ekki valinn fyrirliði Ryder Cup liðs Bandaríkjanna

Í dag verður tilkynnt hvern PGA of America velur sem  fyrirliða til að stýra bandaríska Ryder Cup liðinu til sigurs 2014, í Gleneagles.

Þegar er búið að spá og spekúlera mikið í hver verði fyrir valinu og þrír hafa þótt líklegastir Tom Watson, David Toms og Larry Nelson.

Þeir á bandarísku sjónvarstöðinni Golf Channel beinlínis staðhæfðu  í gær að það væri Tom Watson, sem yrði valinn. A.m.k. er ljóst að það verður EKKI Larry Nelson.

Larry Nelson virtist líka á því að Watson hefði verið valinn því hann sagði að hann teldi það frábæra hugmynd hjá PGA of America að velja einhvern eldri til þess að vera fyrirliði Ryder Cup…. hann væri bara vonsvikinn að það væri ekki hann.

Nelson, sem er þrefaldur risamótasigurvegari með árangur upp á  9-3-1 í Ryder Cup (þ.e. 9 sigra 3 sinnum jafnt og 1 tap) sagði í gær í Morning Drive þætti Golf Channel að enginn frá PGA of America hefði haft samband við sig varðandi það að verða fyrirliði.

„Ég er ekki með farmiða til New York þannig að augljóslega verður það ekki ég, sem verð valinn,“ sagði Nelson.

Golf Digest skrifaði á vefsíðu sína að  PGA of America hefði í hyggju að útnefna Tom Watson næsta fyrirliða bandaríska Ryder Cup liðsins. Það myndi verða í 2. skiptið sem Watson, sem verður 65 ára þegar Ryder Cup fer fram í Gleneagles í Skotlandi 2014 verður fyrirliði. Hitt skiptið var 1993 og Watson hefir ekki farið á Ryder Cup síðan þá.

„Þetta voru vonbrigði en þetta er svo sannarlega ekki endir alls,“ sagði Nelson. „Við vitum ekki hvernig ákvarðanirnar eru teknar og hvaða viðmið eru notuð. Við verðum bara að bregðast við þeim.“

Nelson, sem er tvöfaldur sigurvegari PGA Championship risamótsins, þótti líklegur til að verða fyrirliði Ryder Cup 1995 en Lanny Wadkins var þá tekinn fram yfir hann og síðan var Tom Kite frekar valinn 1997. Talið var að Nelson hefði fjarlægst leikinn um of til þess að koma til greina þó það hafi verið þrýstingur nú nýlega á að Nelson fengi loks tækifæri.

PGA of America fór á svig við vanann og valdi eldri fyrirliða (skv.Golf Channel).  Fyrirliðar hafa venju skv. verið á aldrinum 45-50 ára, en þeir völdu ekki Nelson (Innskot: PGA of America hefir enn ekki gert heyrinkunnugt hver verður nýi fyrirliðinn – ALLT sem sagt er í þessari grein eru vangaveltur – það eina sem virðist ljóst er að Larry Nelson virðist ekki hafa orðið fyrir valinu og þá þykja Tom Watson og David Toms líklegastir…. e.t.v. hefir PGA of America ekki brugðið út af vananum og tilkynnir í hádeginu að David Toms leiði lið Bandaríkjamanna!!!)

En Nelson virðist viss um að hann verði ekki fyrirliði:

„Mér finnst það hart vegna þess að þetta er höfnun í 3. sinn,“ sagði Nelson. „Það virtist sem allt væri með mér í ár, meira en oft áður og ég er svo sannarlega þakklátur þeim þúsundum sem hafa tvítað eða sent tölvupóst og sögðust vona að þetta myndi ganga eftir þetta sinnið. Ég er upp með mér en svo sannarlega vonsvikinn. Ég veit ekki hvers vegna ákvörðunin var tekin, en ég verð víst bara að virða hana.“

Nelson er frekar þegindalegur maður frá Georgíu þó að ferill hans sé merkilegri en 3 risatitlar gefa til kynna. Hann byrjaði ekki í golfi fyrr en hann sneri aftur í Víetnam stríðinu og ferill hans var engu að síður slíkur að hann er þess virði að verða valinn í Frægðarhöll kylfinga.

Watson hefir unnið 8 risamót og sögufrægar eru viðureignir hans við Jack Nicklaus. Hann er sérlega vinsæll í Skotlandi, þar sem hann vann fyrsta risamót sitt árið 1975. Watson hefir auk þess sigrað á Opna breska fimm sinnum, þar af 4 sinnum í Skotlandi.

Nelson segir að það hafi verið „frábær ákvörðun“ af PGA of America að fara út af vananum, en venjulega hafa þeir valið risamótssigurvegara milli 45-50 ára (eins og áður segir) og sem enn er á PGA Tour. Það er bara að Watson hefir þegar haft tækifæri til þess að vera fyrirliði 1993, síðast þegar Bandaríkjamenn sigruðu á Rydernum í Evrópu. Watson yrði sá fyrsti til þess að fá að vera fyrirliði aftur frá því að Jack Nicklaus fékk að vera fyrirliði aftur 1987 á heimavelli sínum Muirfield Village (í Ohio).

„Tom mun þá hafa verið fyrirliði í tvígang. Það skil ég bara ekki,“ sagði Nelson. „Að öðru leyti, er þetta frábær ákvörðun.“

Nelson sagði jafnframt að hann hefði ekki áhuga á aðstoðarfyrirliðastöðu.

„Það er mikið af fólki sem hefir minni hæfileika, sem hefir verið valið til þess að gegna stöðu fyrirliða og það er margt fólk sem hefir meiri hæfileika sem hefir ekki verið valið,“ sagði Nelson. „Ég er á svæði þar sem það er ekki ákvörðun sem ég get tekið. Þetta er ákvörðun fólks, sem ég hef ekki einu sinni talað við. Það tekur bestu ákvörðunina sem það mögulega getur og sem það telur að muni hjálpa okkur í Ryder Cup. Maður verður bara að sætta sig við það.“

„Þetta kemur mér ekki algerlega á óvart, ég er bara vonsvikinn.“

(Innskot: Nokkuð merkilegt að birta grein, þar sem maður segist vonsvikinn af því að hafa ekki verið valinn fyrirliði Ryder Cup, þegar tilkynningin um HVER var valinn liggur ekki fyrir!!!)