Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari. Mynd Golf 1.
Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 10. 2012 | 18:15

Landsliðsþjálfarinn stoltur af glæsilegri frammistöðu Axels

Axel Bóasson, GK,  lék klassagolf í dag á International European Amateur Championship, en mótið er haldið á hinum 6.600 metra langa Montgomerie golfvelli Carton House á Írlandi.  Hann kom í hús á 4 undir pari, 68 höggum. Eftir 3 hringi er Axel búinn að spila á samtals 3 undir pari, 213 höggum (71 74 68).

Axel Bóasson virðir fyrir sér púttlínuna. Mynd: Golf 1.

Í viðtali RÚV við landsliðsþjálfarann í golfi var haft eftirfarandi eftir Úlfari Jónssyni um frábæran árangur Axels:

„Axel hóf daginn við niðurskurðarlínuna og lék áfallalaust golf allan hringinn. Það var mjög gaman að fylgjast með honum, hann byrjaði rólega en síðan kom fyrsti fuglinn á 5. braut, eini skollinn kom á 7. braut, en síðan tveir fuglar i röð. Eftir það sá maður sjálfstraustið aukast hjá honum og þetta var algjörlega vandræðalaust. Hann fann taktinn með drævernum og það hjálpar mikið að geta slegið um 300 metra af teig, enda völlurinn mjög langur, alls rúmlega 6600 metrar.“

„Aðstæður hér eru frábærar og völlurinn hentar klárlega högglöngum kylfingum, nokkuð opinn af teig en síðan eru flatirnar allar upphækkaðar og vel varðar djúpum glompum.“

„Hér eru framtíðar atvinnumenn mótaraðanna, þetta er eitt allra sterkasta áhugamannamót i heimi, því er árangur Axels verulega flottur. Ég er vongóður fyrir morgundaginn enda sjálfstraustið og leikgleðin mikil.“

Heimild: RÚV