Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 3. 2012 | 07:00

Landsliðsþjálfari afar ánægður með íslensku unglingana

Hér að neðan er viðtal við Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfara, um árangur íslenskra ungmenna á Finnish Junior Open mótinu sem lauk um helgina:

Fimm efnilegir íslenskir unglingar luku keppni á Finnish International Junior Championship s.l. föstudag. Að sögn Úlfars Jónssonar landsliðsþjálfara stóðu þau sig með stakri prýði.  Þessir 5 unglingar eru: Birgir Björn Magnússon, GK, Fannar Ingi Steingrímsson, GHG, Gísli Sveinbergsson, GK, Henning Darri Þórðarson, GK og Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, 

„Það er óhætt að segja að þau hafi verið landi og þjóð til sóma í þessu móti. Þau voru öll að keppa í fyrsta sinn fyrir þjóðina og það var virkilega gaman að vera með þeim þessa daga í Finnlandi, þau voru vel undirbúin og nálguðust verkefnið af fagmennsku. Þau eru reynslunni ríkari eftir svona mót og sjá betur hvar þau standa miðað við jafnaldra sína. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkar efnilegustu kylfinga að fá tækifæri til að keppa erlendis. Þau eru þegar orðnir ‚stórir fiskar í litlum polli‘ hér heima ef svo má segja. Þess vegna skiptir miklu máli að þeim sé ögrað með svona verkefnum sem heldur þeim á tánum og hvetur þau til að leggja hart að sér við æfingar og halda áfram að bæta sig,“ segir Úlfar.

Var þetta mót mjög frábrugðið unglingamótunum hér heima?

„Vissulega voru aðstæður allt öðruvísi. Vierumäki völlurinn var svipaður að lengd og þau spila hér heima, en hinsvegar var þéttur skógur begna vegna brautanna, sem krafði leikmenn um að slá beint af teig. Einnig var mikið um brautir sem lágu í hundslöpp, svo þú þurftir að ígrunda vel leikskipulagið og slá mismunandi boltflug. Einnig var nánast enginn vindur og það var góð tilbreyting fyrir þau. Mótið átti að fara fram á Vierumaki Cooke vellinum, sem er lengri og opnari, en flatirnar voru mjög slæmar á þeim velli og því var mótið fært á Classic völlinn. Ég var mjög ánægður með það, því reynslan fyrir þau að leika skógarvöll hjálpar þeim meira en að leika opnari velli, líkara því sem er heima.

Umgjörðin var mjög góð og mikið um sjálfboðaliða sem tóku niður skor á 2-3 holu fresti, einnig var mikill fjöldi dómara sem voru mjög sýnilegir og fylgdust sérstaklega vel með leikhraða, en hringurinn tók oftast nær rétt tæpa 4 tíma sem var frábært. Þetta mót var bæði landsmót Finna og einnig var leikið í fyrsta sinn alþjóðleg keppni, en 11 þjóðir tóku þátt. Þeir lögðu því greinilega mikið í alla umgjörð, mér þótti allavega mikið til koma.“

Hvað stendur svo helst uppúr eftir þetta mót?

„Í fyrsta lagi hversu góðir og heilsteyptir einstaklingarnir voru sem kepptu fyrir Ísland. Umgjörðin á mótinu og að sjálfsögðu árangur Fannars, en það er ekki á hverjum degi sem 13 ára Íslendingur leikur hring undir pari og kemst á verðlaunapall í alþjóðlegu móti, það var ekkert minna en stórkostlegt.

Fannar lék einstaklega vel frá teig að flöt, en fyrsta daginn gengu púttin engan veginn og hann lék á 80 höggum. Á öðrum hring hitti hann nánast allar brautir og 17 flatir af 18 í innáhöggi og setti nokkur góð pútt niður. A þessum hring var hann með 4 þrípútt, þannig að skorið hefði getað verið, eins og alltaf, aðeins lægra. Síðan stóð hann sig eins og hetja á lokahringnum. Hann upplifði pressuna að vera í lokaholli og stóðst hana. Með þessum árangri sýnir hann ungum kylfingum að hægt sé að ná góðum árangri á erlendri grundu.

Annað sem stendur upp úr var að engir kaddíar voru leyfðir, nema það væri jafnaldri, og aðstandendur og þjálfarar áttu að halda sig í hæfilegri fjarlægð. Mér varð á að ganga við hlið eins leikmanns smá stund á einni braut og þá var dómari kominn umsvifalaust upp að hlið mér og bað mig um að halda hæfilegri fjarlægð. Hann skildi ekki íslensku og fyrir honum þá gæti ég verið að gefa leikmanninum ráð, sem ég var náttúrulega ekki að gera. En þetta er einfaldlega hluti af uppeldi ungra einstaklinga, að efla sjálfstæði þeirra, og golfíþróttin er svo góður skóli fyrir lífið, við viljum að krakkarnir læri sem fyrst að taka ákvarðanir og læra af þeim. Stundum eru ákvarðanir góðar, stundum ekki. Við erum að stíga þetta skref í flokkum 15-18 ár hér heima, en leyfum í 14 ára og yngri, þó við mælum eindregið með að kylfuberinn geri ekki annað en að ýta kerrunni og hvetja sinn leikmann áfram.“

Hér má sjá úrslitin og skorin:
Flokkur 14 ára og yngri drengja
3. sæti Fannar Steingrímsson GHD, 80-70-75, +9
11. sæti Henning Darri Þórðarson GK, 79-81-77, +21

Flokkur 16 ára og yngri stúlkna:
21. sæti Ragnhildur Kristinsdóttir GR, 81-83-89, +37

Flokkur 16 ára og yngri drengja:
6. sæti Birgir Magnússon GK, 74-77-77, +12
9. sæti Gísli Sveinbergsson GK, 76-74-80, +14

Heimild: GSÍ