Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 28. 2014 | 09:00

Kylfingurinn Babe Didrikson Zaharias – I. grein

Hér að neðan birtist að nýju  ein fyrsta golfgrein greinarhöfundar, í þriggja golfgreina röð (sem reyndar er þýðing af Wikipedia), en þessi, sem er sú fyrsta af golfgreinunum þremur hefir áður birtst á iGolf miðvikudaginn 20. janúar 2010, þ.e. fyrir rúmum 4 árum:

Mildred Ella Didrikson fæddist 26. júní 1911, í Port Arthur, Texas og dó 45 ára að aldri, 27. september 1956, úr ristilkrabbameini. Hún komst í heimsmetabók Guiness fyrir að vera fjölhæfasta íþróttakona heimsins, ásamt Lottie Dod. Frægust er hún fyrir afrek sín í golfi (sem vikið verður að í framhaldsfréttum næstu tvo daga, þ.e í greinum um kylfinginn Babe Didrickson Zaharias II & III) .

Babe Zaharias ein fjölhæfasta íþróttakona heims

Babe Zaharias var ein fjölhæfasta íþróttakona heims. Hún lést langt um aldur fram.

Hér er þó rétt að geta þess að hún vann alls 82 mót á ferli sínum, sem atvinnumaður í golfi, 41 mót á vegum LPGA (Ladies Professional Golf Association), og 41 mót utan LPGA. Þ.á.m. sigraði hún á Opna bandaríska kvennamótinu (US Women´s Open), 1948, 1950 og 1954; Titleholders Championship, árin 1947, 1950 og 1952 og í Western Open mótum, árin 1940, 1944, 1945 og 1950. Hún vann einnig íþróttasigra í körfubolta og frjálsum íþróttum; vann m.a. til verðlauna á Olympíuleikunum 1932, sem haldnir voru í Los Angeles, þ.e. gull í 80 m hindrunarhlaupi, gull í stangarstökki og silfur í hástökki. Auk þess þótti hún liðtæk í köfun og á hjólaskautum.

Mildred Ella Didrickson var næstyngst 7 barna Hönnuh og Ole, sem voru norskir innflytjendur í Bandaríkjunum. Þegar Mildred litla var 4 ára flutti Didrickson-fjölskyldan til Beaumont í Texas, þar sem þau bjuggu við 850 Doucette götu. Hún var nefnd “Babe” (eftir hafnarboltahetjunni Babe Ruth) eftir að hafa hlaupið 5 sinnum í “höfn” í hafnarboltaleik, sem krakki. Það gælunafn festist við hana.

George Zaharias og Babe í golfi

Hjónin George Zaharias og Babe í golfi

Þó Babe hafi verið best þekkt fyrir íþróttaafrek sín var hún mjög myndarleg í “hefbundnum” viðfangsefnum kvenna þess tíma, þ.e. hún var flínk að sauma og saumaði margt af golffötunum sem hún klæddist. Hún vann meistarakeppnina í útsaum í State Fair of Texas í Dallas, árið 1931. Babe útskrifaðist 1929 frá menntaskólanum í Beaumont en fór ekki í háskóla. Hún var söngkona og lék á harmónikku og eru til margar upptökur af söng hennar hjá Mercury útgáfufyrirtækinu. Söluhæsta lag hennar var “I Felt a Little Teardrop” með “Detour” á B-hliðinni.

Hún var þegar fræg, sem Babe Didrikson, þegar hún giftist George Zaharias (1908-1984), atvinnumanni í glímu, í St. Louis, Missouri, 23. desember 1938. Eftir giftingu varð hún þekkt undir nafninu Babe Zaharias. Babe og George kynntust þegar þegar þau spiluðu golf saman í PGA-móti, en Babe er fyrsta konan til að keppa á móti körlunum á PGA-mótaröðinni. George Zaharias, var grískur innflytjandi, sem bjó í Pueblo í Colorado. Hann var alltaf uppnefndur “grátandi Grikkinn, frá Cripple Creek” (Crying Greek from Cripple Creek). Geoge var einnig leikari í hjáverkum. Zaharias-hjónin áttu engin börn og þeim var neitað af yfirvöldum um leyfi til að mega ættleiða börn.

Heimild: Wikipedia