Ragnheiður Jónsdóttir | október. 18. 2011 | 10:00

Kvikmyndin „You´ve been Trumped“ – um byggingu Donald Trump á golfvelli í Skotlandi

Hér á Golf 1 var í gær frétt um að Donald Trump hefði gert tilboð í Doral golfvallarsvæðið í Miami, Flórída, en það er sem stendur í skiptameðferð.

Þegar þessi fasteignaauðjöfur og golffíkill (Trump er með einsstafs tölu í forgjöf) gengur í það að kaupa eða byggja golfvelli er það oft á tíðum umdeilt. Svo er einnig um Doral og nokkuð víst að nokkrir auðmenn í Bandaríkjunum muni taka sig saman til þess að trompa Trump í hvað snertir boð í Doral.

Anthony Baxter gerði heimildarmyndina „You´ve been Trumped“ um framgang Donald Trump við byggingu Trump golfvallarins  í Skotlandi.  Í myndinni sjáum við Trump m.a. kalla jarðeiganda við nýja golfvöllinn „svín sem búi  í slummi“; Trump staðhæfa að hann hafi umhverfisverndarsinna á sínu bandi og síðan formann fuglaverndarsamtaka Skotlands koma fram og segja byggingu vallarins m.a. vera „eyðileggjandi og ranga.“ Kona ein segir að allt hristist og skjálfi heima hjá sér vegna framkvæmdanna en Trump er sýndur þar sem hann segir  að allir séu ánægðir vegna þess að framkvæmdin sé atvinnuskapandi.

Heimildarmyndin „You´ve been Trumped“ var heimsfrumsýnd 3. maí s.l. í Toronto, Kanada  og nú s.l. sunnudag var frumsýning í Bandaríkjunum – Spurningin er bara, hvenær kemur hún til Íslands? Íslendingur kom m.a. að gerð hennar, en Jónsi á tónlistina í myndinni.

Með því að smella hér má sjá kynningarmyndskeið úr kvikmyndinni: YOU´VE BEEN TRUMPED