Ragnheiður Jónsdóttir | september. 14. 2016 | 12:30

Kvennalandsliðið hefur leik á HM í Mexíkó í dag!

Íslenska kvennalandsliðið í golfi hefur leik í dag á Heimsmeistaramóti áhugakylfinga en keppt er á Riveria Maya golfvallasvæðinu í Mexíkó. Mótið ber nafnið Espirito Santo Trophy og er þetta í 27. sinn sem mótið fer fram.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir (GK), Signý Arnórsdóttir (GK) og Berglind Björnsdóttir (GR) skipa íslenska liðið en Úlfar Jónsson er þjálfari.

Keppnin fer fram á tveimur völlum, Mayakoba El Camaleon og Iberostar Playa Paraiso og lýkur keppninni á laugardaginn.

Komast má á heimasíðu mótsins með því að SMELLA HÉR: 

Að þessu sinni eru 55 þjóðir sem taka þátt á HM áhugakylfinga og er það met. Fyrra metið var 53 þjóðir í Tyrklandi árið 2012. Tvær þjóðir senda lið til keppni í fyrsta sinn á HM en það eru Búlgaría og Marokkó.
Ástralía hefur titil að verja en Suður-Kórea fagnaði HM-titlinum 2010 og 2012.

Margir af keppendum sem tóku þátt á EM kvenna hér á landi í júlí á þessu ári eru á meðal keppenda. Stigahæstu kylfingarnir á áhugamannalistanum í kvennaflokki eru í Mexíkó og einnig eru margir kylfingar sem tóku þátt á ÓL í Ríó í Brasilíu nýverið.

Rose Tarpley frá Guam (54) er elsti keppandinn á HM og Elvira Rastvortseva (13) frá Úkraínu er sú yngsta. Dottie Ardina frá Filipseyjum var 12 ára þegar hún tók þátt árið 2006 á HM. Tiffany Chan frá Hong Kong er að taka þátt á sínu fimmta HM. Guðrún Brá Björgvinsdóttir er í hópi sex keppenda sem eru að taka þátt á sínu fjórða HM. Metið á þessu sviði á Elisabeth Nickhorn frá Brasilíu sem tók 13 sinnum þátt á HM.

Árangur Íslands á HM frá upphafi:

2014: 29. sæti af alls 50 þjóðum.
2012: 36. sæti af alls 53 þjóðum.
2010: 42. sæti af alls 52 þjóðum.
2008: 41. sæti af alls 48 þjóðum.
2006: 33. sæti af alls 42 þjóðum.
2004: Tóku ekki þátt.
2002: Tóku ekki þátt.
2000: 32. sæti af alls 32 þjóðum.
1998: Tóku ekki þátt.
1996: Tóku ekki þátt.
1994: 24. sæti af alls 29 þjóðum.
1992: Tóku ekki þátt.
1990: Tóku ekki þátt.

Texti: GSÍ