Í næsta mánuði fer fram í Skotlandi Ryder Cup á Gleneagles.
Þegar skoskar golffréttir eru lesnar má þar sjá mál sem fær mikla umfjöllun en það er mál Douglas McDougall, kennara, sem staddur var í krá í Hamilton, Lanarkshire 30. september 2012 til að fylgjast með Ryder Cup.
Í drukknu ástandi réðist hann á, blótaði og gerði hróp að sjúkraflutningsmönnunum Ian Taylor og James McCarron, meðan þeir voru í útkalli. Ekkert er getið um frekari málavexti, t.a.m. af hverju McDougall réðist á sjúkra-flutningamennina.
McDougall sem er 58 ára kennari í Buchanan High School í Coatbridge fór vegna atviksins fyrir aganefnd almenna skólaráðsins í Skotlandi (ens. General Teaching Council for Scotland (GTCS) og var vikið frá störfum í 6 mánuði. Eftir þann tíma getur hann aftur sótt um að fá að kenna en óvíst er hvort hann fái að kenna aftur.
Það sem ráðið leit til þegar það felldi agaviðurlögin var að McDougall var áður búinn að missa ökuleyfi sitt vegna ölvunaraksturs 2012 í 4 ár og hafði neitað að veita lögreglu öndunarsýni 2004 þegar hann lá undir grun um ölvunarakstur.
Skilaboðin eru skýr: Þeir sem veitast drukknir að mönnum sem eru að sinna skyldustörfum sínum, meðan verið er að horfa á Ryder Cup eiga á hættu að missa vinnu sína í Skotlandi! Hræðsluáróður? …. nú þegar Ryder bikars keppnin er handan við hornið í Skotlandi? Eða áminning fyrir áhorfendur Ryder Cup, hvort heldur er í Gleneagles eða fyrir framan sjónvarpsskjái á krám eða annars staðar að hegða sér vel… annars hafi þeir verra af? Kunni jafnvel að missa starfið sitt?
Eins og í svo mörgum málum eru skoðanir skiptar. Sumum finnst ófært að láta drykkjuólátaseggi kenna ungmennum og því rétt að víkja kennaranum úr starfi – aðrir eru aftur á móti slegnir yfir að hægt sé að víkja fólki úr starfi, 2 árum eftir að brotið átti sér stað (McDougall kynni jú að hafa bætt sitt ráð) og nota m.a. sem rök 10 ára mál sem ekki var mál og finnst ekki rétt að beita þeim agaviðurlögum að víkja fólki úr starfi; því maðurinn (McDougall) kynni jú að hafa gegnt störfum sínum vel og óaðfinnanlega, þó hann drekki óhóflega í frístundum sínum. Þetta vekur upp spurningar hvort viðurlögin séu við hæfi í þessu tiltekna broti (ens. Does the Punishment fit the Crime?)
