Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 8. 2013 | 11:00

Kaymer vill að eitthvað verði gert í of hægum leik

Þýski kylfingurinn Martin Kaymer vill að umræðunni í golfinu verði loksins snúið frá löngum pútterum og að of hægum leik í golfinu.

Kaymer hefir áður látið frá sér fara að hann sé ánægður með bannið á löngu pútterunum en R&A og USGA ákváðu í síðasta mánuði að langir pútterar verði með öllu bannaðir frá og með janúar 2016. Kaymer vill að reglusetningarvaldið innan golfíþróttarinnar snúi sér nú loks að of hægum leik.

„Ég er ánægður með að málið með löngu pútterana sé nú afgreitt, við erum búin að tala í yfir ár um þá og ég er bara ánægður með að þurfa ekki að tjá mig lengur um þá,“ sagði Kaymer við Sky Sports News.

„Það er ekki eins og maður taki upp pútter og pútti betur – maður verður að æfa sig með honum til þess að verða góður.“

„Nú væri áhugavert að fara að beina athyglinni að of hægum leik á golfvöllum; það er hreint með ólíkindum hversu hægir sumir kylfingar eru og það þarf að taka á því!“