Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 18. 2018 | 08:30

Kaymer segist ekki verðskulda að vera í Ryder bikars liði Evrópu

Tvöfaldur risamótameistari Martin Kaymer býst ekki við að vera með í Ryder bikars liði Evrópu í Frakklandi nú í haust.

Kaymer, 33 ára, sem hefir sigrað á PGA Championship 2010 og Opna bandaríska 2014, sem og Players Championship, hefir átt erfitt í ár.

Hann hóf keppni á Nordea Masters í 127. sæti heimslistans og hefir ekki komist í gegnum niðurskurð þrívegis á sl. 4 mótum, sem hann hefir tekið þátt í.

Eftir 2 hringi á Nordea Masters er Kaymer hins vegar T-7 á 6 undir pari.

En hann telur það ekki nægilegt til þess að komast í Ryder liðið.

Finnst ykkur ég eiga skilið að vera með eftir það hvernig ég hef verið að spila og bara með einn sigur í Svíþjóð? sagði Kaymer á golfchannel.com. „Er það nóg? Mér finnst það ekki.

Kaymer hefir hins vegar verið fastamaður í sl. 4 Ryder bikars liðum Evrópu og hefir reynst dýrmætur á ögurstundum fyrir lið Evrópu, en árangur hans upp á 5-6-3 er e.t.v. ekki nógu góður til þess að hann verði með í ár.

Í liðum Evrópu og Bandaríkjanna er fullt af ungum hæfileikamönnum og eldri kempur eins og Kaymer, Sergio Garcia og Henrik Stenson verða að vinna og hafa fyrir því til þess að komast í liðið.