Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 18. 2013 | 20:30

Karlasveit Keilis Íslandsmeistari í Sveitakeppni GSÍ 2013!!!

Það var karlasveit Keilis, sem hampaði Íslandsmeistarabikarnum í Sveitarkeppni GSÍ 2013, í 1. flokki karla eftir glæsiframistöðu á Hvaleyrinni í dag.

Sveit Keilis keppti til úrslita um 1. sætið við Íslandsmeistara GKG 2012 og vann yfirburðasigur.

Það hófst strax með sigri Hennings Darra Þórðarsonar og Benedikts Sveinssonar í fjórmenningi en þeir höfðu betur í viðureign við Aron Snæ Júlíusson og Emil Þór Ragnarsson 2&0.

Klúbbmeistari Keilis 2013, Birgir Björn Magnússon,  vann glæsisigur á Ragnari Má Garðarssyni 4&3 og Gísli Sveinbergsson vann sömuleiðis góðan sigur á Alfreð Brynjari Kristinssyni 2&1.

Einn besti kylfingur landsins, Björgvin Sigurbergsson vann Guðjón Henning Hilmarsson og til að hleypa smá spennu í hlutina geymdi hann rothöggið þar til á síðustu holu.

Íslandsmeistarinn í höggleik 2013, Birgir Leifur Hafþórsson, var sá eini sem hélt uppi heiðri GKG og vann sinn leik gegn Rúnari Arnórssyni, sem á tímabili hafði 4 holu forskot á Birgi Leif.

GR varð í 3. sæti eftir sigur á GSE, 3,5-1,5 og GS bar sigurorð af GKJ í leik um 5. sætið og fór sá leikur 3-2. NK vann síðan GÓ og tryggði sér þar með áframhaldandi veru í 1. deild.  GKJ og GÓ féllu niður í 2. deild.