Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 15. 2013 | 12:30

Kaffi með kameldýri

Eftir nokkra stormasama daga í Abu Dhabi þá er Rory McIlroy tilbúinn að hefja 2013 keppnistímabilið í Abu Dhabi HSBC Golf Championship, sem hefst ekki á morgun heldur hinn.

Þetta er fyrsta mótið fyrir efsta mann stigalista Evrópumótaraðarinnar og eins fyrsta mótið sem hann spilar með nýju Nike kylfunum sínum eins og allir golffréttavefir heimsins hafa gert skilmerkilega grein fyrir.

Í þeim 5 skiptum sem Rory hefir tekið þátt í Abu Dhabi HSBC Golf Championship hefir hann ekki orðið neðar en í 11. sæti og hefir tvívegis orðið í 2. sæti; þ.e. á eftir Martin Kaymer 2011 og Robert Rock 2012.  Reyndar hafa síðustu 19 hringir hans verið par eða betra og 15 þeirra upp á 60 og eitthvað.

„Þetta er spennandi tími fyrir mig og ég er mjög ánægður með allt sem hefir átt sér stað og hlakka til þess að komast út á golfvöll og reyna nýju kylfurnar og útbúnaðinn,“ sagði Rory.

„Þetta er staður (Abu Dhabi) þar sem mér hefir gengið vel á. Ég hugsa að eina vandamál mitt undanfarin ár hafi verið Martin Kaymer. Hann hefir spilað virkilega vel hér og unnið mótið nokkrum sinnum, 3 sinnum held ég og ég var alltaf í 2. sæti. Það væri ágætt ef mér gengi betur í þessari viku og það er það sem ég stefni að.“

Það eru einmitt Rory, Tiger og Kaymer sem hefja mótið kl. 7:40 næsta fimmtudag. Það var hér sem samband Rory og Tiger blómstraði en þeir spiluðu fyrstu 3 hringina saman í fyrra og eiga hvorugur til nógu stór orð til þess að hrósa hver öðrum, í dag.

McIlroy sagði: „Það er frábært bara að verja tíma með honum og fá ráð hjá honum um nokkra hluti sem mér finnst ég þurfa en þetta er samband sem byggist á virðingu, vegna þess að hann var algjörlega aðalátrúnaðargoðið mitt þegar ég var að alast upp og hann hefir gert ótrúlega hluti í golfinu. Og ég held að hann virði mig fyrir það sem mér hefir tekist á golfvellinum.“

Tiger er mjög hrifinn af leik Rory: . „Ef þið horfið á hvernig hann slær, þá sjáið þið að hann slær fallega og drævar fallega, hann er með fallegt járnaspil og þegar pútterinn hans er heitur setur hann niður mörg pútt.Hann hefir unnið nokkur risamót með miklum mun, hann hefir allt sem til þarf en þarf aðeins að fínstilla sig. Hann á aðeins eftir að verða betri og það verður gott að sjá það.“

Um sinn eiginn leik sagði Tiger loks: „Ég var mjög ánægður að hafa getað spilað fulla dagskrá á síðasta ári. Ég hafi ekki spilað af fullum krafti og heila dagskrá í mjög langan tíma. Þannig að fyrir mig var þetta stórt ár í því  tilliti. Ég gat spilað allt árið. Og þar af leiðandi vann ég líka í nokkur skipti og ég er mjög spenntur fyrir þessu ári.“

Í gær fengu Tiger og Rory (ásamt Justin Rose) sér kaffi með kameldýri – til þess að slaka svolítið á fyrir keppnina sem framundan er.

Heimild: europeantour.com